Viðskipti innlent

Slitastjórn Landsbankans fær 7,5 milljarða í sinn hlut

Magnús Halldórsson skrifar
Landsbankinn.
Landsbankinn.
Slitastjórn Landsbankans gekk í gær frá sölu á 65 prósent hlut í leikfangaverslanakeðjunni Hamleys fyrir tæplega 7,5 milljarð króna. Slitastjórnin er sátt við verðið sem fékkst fyrir hlutinn, en kaupandinn er franska verslanakeðjan Group Ludendo.

Slitastjórn Landsbankans gekk formlega frá sölu á hlut sínum í Hamleys í gær. Verðmiðinn á félaginu í viðskiptunum var tæplega 60 milljónir punda, eða sem nemur tæplega tólf milljörðum króna. Í hlut þrotbús Landsbankans kemur 65 prósent af kaupverðinu, eða um 7,5 milljarða króna.

Páll Benediktsson, upplýsingafulltrúi slitastjórnar Landsbankans, segir slitastjórnina ánægða með það verð sem fékkst fyrir hlutinn.

„Það er búnar að vera í gangi viðræður við þetta félag frá því á vormánuðum, og síðan hafa verið samningaviðræður í gangi sem lauk í gær. Slitastjórnin telur niðurstöðuna vera ákjósanlega," sagði Páll í samtali við fréttastofu í morgun.

Group Ledonde hefur nú eignast allt félagið. Eins og greint var frá í fréttum Stöðvar 2 10. ágúst síðastliðinn þá eignaðist hin breska Rowland-fjölskylda ríflega 30 prósent hlut í Hamleys á grundvelli verðmats sem gerði ráð fyrir því að hlutabréfin kostuðu um 750 þúsund pund, eða sem nemur um 150 milljónum króna. Rowland-fjölskyldan er stærsti eigandi Banque-Havilland, sem byggir á grunni Kaupþings í Lúxemborg. Fjölskyldan er auk þess hluthafi í Mp banka. Hagnaður Rowland fjölskyldunnar af þessum viðskiptum nemur á milli þriggja og fjögurra milljarða króna, sé mið tekið af því verði sem franska félagið greiddi fyrir félagið.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×