Innlent

Stefnir í metsumar í hvalaskoðun

BBI skrifar
Mynd/Elding
Það stefnir í metsumar í ár hjá hvalaskoðunarfyrirtækinu Eldingu sem gerir út frá Reykjavíkurhöfn. Sé bara horft á sumarið er útlit fyrir 20% aukningu frá því í fyrra. Sé veturinn tekinn með í reikninginn blasir við 40-50% aukning en veturinn var sérlega góður í ár.

„Svo já það stefnir í metsumar hjá okkur," segir Rannveig Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Eldingar. „Ekki nema hvalirnir hverfi bara. Þetta er búið að vera skelfilegt núna síðustu daga. En alla vega eru bókanirnar góðar."

Fyrirtækið veltir um 400 milljónum á ársgrundvelli.

Í fréttum í vikunni kom fram að hrefnuveiðimenn eiga erfiðara með að sjá hrefnur í Faxaflóa og hafa áhyggjur af því að aukin makrílganga við landið hafi slæm áhrif á hrefnustofninn. „Maður veit raunverulega ekki hvaða áhrif markíllinn hefur á hrefnuna," segir Rannveig en efast þó hálfpartinn um að þau séu svo slæm. „Við teljum að hrefnuveiðarnar hafi miklu meiri áhrif en makríllinn. Það hefur verið makríll hér áður," segir hún.

Rannsóknir sem gerðar voru við Háskóla Íslands benda til þess að það séu sömu hrefnurnar sem koma til Íslands á ári hverju. Þannig sé hægt að þekkja hvalina sem koma hér ár frá ári. Starfsmenn eldingar halda því fram að í raun séu ekki svo margir hvalir sem venja komur sínar í Faxaflóann. Því telja þeir höggvið alvarlegt skarð í stofninn á svæðinu með því að veiða úr honum.

Starfsmenn Eldingar telja að veiðarnar hafi töluvert meiri áhrif á hrefnustofninn en makríllinn og segjast finna mikinn mun á stofninum frá því veiðarnar hófust. Bæði hafi hrefnurnar verið færri og styggari síðan.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×