Innlent

Fiskurinn með nælonroðið

Hér hafa þeir Úlfar Eysteinsson, Stefán Úlfarsson og Einar Björn Halldórsson tekið þennan furðufisk traustataki. Tunglfiskurinn heldur sig oftast við yfirborð sjávar og nærist meðal annars á kolkröbbum, marglyttum og öðru sem fyrir honum verður.
Hér hafa þeir Úlfar Eysteinsson, Stefán Úlfarsson og Einar Björn Halldórsson tekið þennan furðufisk traustataki. Tunglfiskurinn heldur sig oftast við yfirborð sjávar og nærist meðal annars á kolkröbbum, marglyttum og öðru sem fyrir honum verður. fréttablaðið/stefán
Úlfar Eysteinsson, veitingamaður á Þremur frökkum, komst heldur betur í feitt í gær þegar hann fékk 65 kílóa tunglfisk inn á borð til sín. Það var vinveittur sjómaður á Sighvati Bjarnasyni frá Vestmannaeyjum sem færði honum fenginn.

„Þetta er reyndar bara lítill fiskur því þeir stærstu geta orðið um 1.300 kíló,“ segir Úlfar sem þó hefur úr nógu að moða.

„Ég er hérna kominn með um tólf til fimmtán kíló af gæðafiski sem við bjóðum nú upp á fram á föstudag.“ Hann segir að um einstakt tækifæri sé að ræða. Úlfar segir ýmislegt kynlegt við fiskinn. Til dæmis segir hann að roðið sé viðkomu eins og nælon.

„Þegar við sáum það þá hugsaði ég að alltaf er nú náttúran á undan okkur að finna upp hlutina.“ segir hann og hlær við.

Margt er greinilega að breytast í þessu hafi umhverfis okkur og eins gott að sæfarendur hafi augun hjá sér.

Til dæmis segir Jónbjörn Pálsson, fiskifræðingur á Hafrannsóknastofnun, að í síðasta mánuði hafi stofnuninni borist ábending um sæskjaldböku á svamli í Faxaflóa. Það er eins gott að hún komi sér suður um höf fyrir haustið ef einhver Íslendingurinn á ekki að finna hana í fjöru þegar kólna tekur.- jse



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×