Innlent

Prófessor stefnir alþingismanni

Ragnar Árnason
Ragnar Árnason
Ragnar Árnason, hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands, hefur stefnt Þór Saari, þingmanni Hreyfingarinnar, fyrir dóm vegna meiðyrða. Ragnar krefur Þór um hálfa milljón króna í miskabætur.

Tilefnið er ummæli sem Þór lét falla í samtali við DV þess efnis að Ragnar hefði þegið greiðslur frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna í áratugi. „Ég missti það út úr mér á harðahlaupum í samtali við blaðamann DV að hann væri búinn að vera á launum hjá LÍÚ í langan tíma. Svo hafði Ragnar nú samband við mig símleiðis og útskýrði fyrir mér að þetta væri rangt og bað mig að leiðrétta þetta,“ segir Þór. Það hafi verið gert en allt hafi komið fyrir ekki.

Þór er ósáttur við að Ragnar skuli grípa til þessa úrræðis og telur það setja tjáningarfrelsi hans skorður. „Þetta er búið að kosta mig 250 þúsund nú þegar og mun örugglega kosta mig milljón þegar upp er staðið. Út af einhverju svona algjöru kjaftæði.“

Ragnar vildi ekki tjá sig um málið en vísaði á lögmann sinn, Huldu Árnadóttur. Hún segir að leiðréttingin í DV hafi ekki verið fullnægjandi.

„Ragnar fór þess á leit við hann að hann bæðist opinberlega afsökunar og drægi ummælin til baka en hann var ekki fús til þess og þar af leiðandi var Ragnar nauðbeygður til að höfða þetta mál til að fá ummælin dæmd dauð og ómerk,“ segir Hulda. - sh



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×