Innlent

Vilja brenna sorp í Helguvík

Mynd/Vilhelm
Bandaríska sorpeyðingarfyrirtækið Triumvirate Environmental hefur lagt fram kauptilboð í sorpeyðingarstöðina Kölku á Suðurnesjum. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hljóðar tilboðið upp á 10 milljónir dala, um 1,25 milljarða króna. Kalka er í eigu sveitarfélaga á Suðurnesjum og hefur átt við mikla fjárhagserfiðleika að stríða á undanförnum árum. Gangi kaupin eftir áformar Triumvirate að flytja úrgang frá Norður-Ameríku til Íslands og brenna í sorpeyðingarstöðunni, sem er staðsett í Helguvík.

Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, stærsta eiganda Kölku, staðfestir að tilboð hafi verið lagt fram og að væntanlegir kaupendur hafi kynnt sínar hugmyndir. Hann vildi ekki tjá sig frekar um málið.

Heimildir Fréttablaðsins herma að tilboðið hafi átt að renna út 29. febrúar, næstkomandi miðvikudag, en að það hafi verið framlengt um nokkra daga svo að eigendur Kölku gætu tekið afstöðu til þess. Stöðin er í eigu Reykjanesbæjar, Grindavíkur, Sandgerðis, Garðs og Voga.

Triumvirate Environmental er bandarískt sorpeyðingarfyrirtæki með starfsemi í Bandaríkjunum og Kanada. Fyrirtækið sérhæfir sig í förgun á alls kyns iðnaðarúrgangi auk þess sem það þjónustar meðal annars heilbrigðis- og líftæknigeirann. Það sorp sem fyrirtækið hyggst flytja hingað inn til förgunar rúmast innan þeirra heimilda og reglugerða sem Kalka starfar eftir í dag. Íslenskt endurskoðunarfyrirtæki og lögfræðistofa hafa komið að málinu fyrir hönd Triumvirate.

Sorpeyðingarstöðin Kalka er í eigu félags sem heitir Sorpeyðingarstöð Suðurnesja (SS). Fjárhagsstaða þess hefur verið afar bág. Eigið fé félagsins var neikvætt um 555 milljónir króna í lok árs 2010 samkvæmt síðasta birta ársreikningi og skuldir þess tæplega 1,3 milljarðar króna. Í maí 2011 var erlendum langtímaskuldum SS breytt í íslenskar krónur og lækkaði höfuðstóll lána þess við það um 163 milljónir króna. Endurskoðendur félagsins gerðu fyrirvara við undirskrift sína á síðasta ársreikningi og töldu að „nokkur óvissa" væri um möguleika félagsins til áframhaldandi reksturs. - þsj



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×