Innlent

Ætlar að taka ár í að hjóla frá Íslandi til Kína

Öllum farangri verður hlaðið á hjólið, sem Símon segir vera orðið frekar þungt.
Öllum farangri verður hlaðið á hjólið, sem Símon segir vera orðið frekar þungt. Fréttablaðið/Vilhelm
„Ég reikna með að þetta taki svona tíu mánuði upp í ár" segir Símon Halldórsson, hjólreiðakappi, stálsmiður og vélstjóri, sem hyggst leggja í hjólreiðaferð frá Íslandi til Kína nú í lok mars.

Símon hefur, að eigin sögn, gengið með þennan draum í maganum í mörg ár. Undirbúningurinn er búinn að taka hann um tvö ár í það heila og enn er fjöldi lausra enda sem á eftir að hnýta.

En hvernig hjólar maður til Kína?

„Þú stígur fyrst á annan pedalann og svo hinn," segir Gunnar og hlær. Hann segir það vera mjög mikinn misskilning að aðeins fólk í fullkomnu formi geti lagt í svona ferðir. „Maður þarf að sjálfsögðu að vera í góðu formi, og vanur því að hjóla, en oft á tíðum er þetta bara venjulegt skrifstofufólk," segir Símon sem þekkir engin fordæmi fyrir svona langri ferð frá Íslandi.

Símon mun hefja ferðina í Hafnarfirði. Hann tekur svo Norrænu yfir til Danmerkur, fer þaðan til Þýskalands, svo Póllands og áfram.

„Samkvæmt planinu kem ég til með að fara í gegnum 21 land, sem eru auðvitað misstór," segir Símon. Hann verður einn á ferð, sem hann segir vera bæði jákvætt og neikvætt. „Það gefur manni mikið frelsi að vera einn, en á sama tíma geta litlir hlutir eins og að fara inn í verslun eða á klósettið orðið flóknir þar sem enginn er til að passa búnaðinn á meðan. Það hafa samt margir farið í sams konar ferðir einir, og ég þekki engin dæmi þess að fólk hafi glatað búnaðnum sínum," segir Símon.

Kort af leiðinni sem Símon ætlar að hjóla.Mynd/fjallakall.wordpress.com
Allur farangur verður í töskum á hjólinu, en hann verður með fullkominn útilegubúnað með í för og ætlar að spara pening með því að gista sem mest í tjaldi. Ferðina telur hann koma til með að kosta á milli tveggja og þriggja milljóna króna fyrir utan allan búnað.

„Ég hef nú reyndar ekki tekið þetta allt saman, en ég ætla bara að láta mína peninga duga," segir Símon sem er enn ekki búinn að finna sér neina styrktaraðila.

Hægt verður að fylgjast með ævintýrinu á heimasíðunni fjallakall.wordpress.com.

tinnaros@frettabladid.is



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×