Viðskipti innlent

Bláa lónið tapaði 135 milljónum 2010

Mynd/GVA
Bláa lónið hf. tapaði 856 þúsund evrum, um 135,2 milljónum króna, á árinu 2010. Alls námu rekstrartekjur félagsins 16,8 milljónum evra, tæpum 2,7 milljörðum króna. Þar af skilaði aðgangseyrir 6,3 milljónum evra, tæpum milljarði króna, í kassann. Þetta kemur fram í ársreikningi Bláa lónsins hf. sem skilað var inn til ársreikningaskráar um miðjan desember síðastliðinn.
Samkvæmt verðskrá sem félagið birtir á heimasíðu sinni kostar 4.800 krónur fyrir fullorðinn einstakling að fara í Bláa lónið. Meðlimir í Vinaklúbbi þess fá þó sérkjör.

Í ársreikningnum kemur fram að "þann 30. september 2010 voru tilteknir starfsþættir samstæðunnar færðir yfir í ný félög utan samstæðunnar. Tilgangurinn með skiptingunni var að skerpa á áherslum í rekstri og auka áhersluna á kjarnastarfsemi félagsins. Þau félög sem urðu til við skiptinguna heita Hótel Bláa lónið ehf., Blue Lagoon International ehf., Hreyfing Fasteignir ehf. og Hreyfing eignarhaldsfélag ehf.". Þar segir enn fremur að "ef kröfuhafi í félagi, sem tekið hefur þátt í skiptingunni, fær ekki fullnustu kröfu sinnar í því félagi sem kröfuna skal greiða ber hvert hinna þátttökufélaganna óskipta ábyrgð á skuldbindingum sem stofnast höfðu þegar upplýsingar um skiptingaráætlunina voru birtar".

HS Orka á 24,4% hlut, Landsbankinn 24,3% hlut og Hvatning ehf., á 17,3% hlut. Eigendur Hvatningar eru meðal annars Grímur Sæmundsen og Edvard Júlíusson.

Samtals skuldar Bláa lónið hf. 24,9 milljónir evra, 3,9 milljarða króna, eftir skiptinguna. Félagið metur eignir sínar á 36,7 milljónir evra, 5,8 milljarða króna. Næst á eftir aðgangseyri hafði félagið mestar tekjur upp úr vörusölu eða 4,2 milljónir evra, um 664 milljónir króna.

Félagið hefur einkaleyfi til ársloka 2044 frá HS Orku hf. til notkunar á jarðhitavökva Í Svartsengi.

- þsj





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×