Skoðun

Hagar

Jón Ásgeir Jóhannesson skrifar
Það er gaman að fylgjast með mínu gamla félagi Högum. Hlutafjárútboðið kláraðist núna í vikunni og niðurstaðan er sú að það var fimmföld eftirspurn eftir því sem selt var. Allir helstu lífeyrissjóðir landsins tóku þátt. Vá!

Ég man þegar ég sat niðri í kjallara í Skútuvogi 13 fyrir fjórtán árum og teiknaði Haga (þá Baugur) viðskiptaáætlunina upp á töflu með pabba við hlið mér sem kom með sínar athugasemdir um hvernig þetta ætti að vera og hvað við ættum að gera. Saman sátum við feðgar þarna í kjallaranum og pældum í því hvernig þetta ætti allt að vinna saman, innkaup, dreifing, hagræðing með hagsmuni neytenda að leiðarljósi og gott og arðsamt fyrirtæki. Dagurinn var 20. júní 1998. Þann dag höfðum við gengið frá kaupum ásamt bankastofnunum á 75% hlut Hagkaupsfjölskyldunnar í Bónus og Hagkaup.

Mörg djörf spor voru tekin á uppvaxtarárum fyrirtækisins. Við gerðum leigusamning um 11 þúsund fermetra í Smáralind fyrir Hagkaup, Debenhams og fleiri smærri verslanir. Samningur sem var undirritaður í kjallaranum í Skútuvogi leiddi til þess að Smáralind reis. Hagkaupsbúðin var stækkuð frá upphaflegri áætlun úr 6.500 fm í 10.000 fermetra. Þar skiptu mestu orð eiginkonu minnar Ingibjargar, sem sagði að pabbi hennar hefði alltaf sagt að 10.000 fermetrar væri rétt stærð fyrir Hagkaup. Þó Pálmi í Hagkaup hafi ekki lifað að sjá 10.000 fermetra Hagkaupsbúð þá hafði hann rétt fyrir sér.

Hagkaup í Smáralind varð fljótt mjög vinsæl meðal viðskiptavina. Margir samstarfsfélaga minna ráku líka upp stór augu, þegar ég sagði að hún ætti að vera 10.000 fermetrar. Mörgum árum síðar héldu þeir hinir sömu að ég væri orðinn geggjaður, þegar ég lagði til sólarhringsopnun Hagkaups í Skeifunni. Það voru framandi hugmyndir og ástríða fyrir því sem menn voru að gera sem skóp Hagkaup og Bónus. Uppbygging Haga var skemmtileg á þeim tíma sem ég var viðriðinn reksturinn. Búðir voru keyptar og seldar og góð vörumerki voru fengin til landsins, svo sem Zara.

Í gegnum sum þessara fyrirtækja kynntumst við fyrirtækjum erlendis. Litla verslunarfyrirtækið á Íslandi hafði gríðarleg áhrif á hvernig verslun þróaðist í Englandi, en enska þjóðin er oft kölluð Nation of shopkeepers. Mér er til efs að Sir Philip Green ætti Arcadia í dag eða Malcolm Walker hefði endurreist Iceland í Bretlandi, nema út af viðskiptahugmyndinni sem fæddist í kjallaranum í Skútuvogi.

Í gær var stigið nýtt skref í sögu fyrirtækisins. Á þeim tímapunkti má ekki gleymast í umræðunni að Hagkaup og Bónus hafa alltaf staðið í skilum við sína viðskiptamenn og banka. Aldrei hefur verið afskrifuð króna í þessum rekstri. Nú er því haldið fram að Arion banki hafi tapað svo miklu á því að hafa lánað til eignarhaldsins á Högum. Ég er viss um að ef menn myndu reikna dæmið til enda, þá hafa bankar grætt á Högum og þá sérstaklega forveri Arions banka; Kaupþing. Söguna verður að skoða í samhengi.

Ég gleymi því aldrei að þegar við keyptum Magasin í Kaupmannahöfn á sínum tíma í félagi við Birgi Bieldvedt greip fráfarandi stjórnarformaður félagsins þéttingsfast í höndina á mér og sagði: „Take good care of the old Lady (Magasin)." Ég man ég svitnaði. Mér hafði verið falin ábyrgð á fyrirtæki með mikla sögu. Það var mitt að hlúa að henni og sjá til þess að félagið héldi áfram að vaxa og dafna. Ég og Biggi stóðum undir okkar ábyrgð. Við réðum inn stjórnendur, t.d. einn frá Högum sem rekur félagið enn í dag og hefur náð að láta það blómstra undir sinni stjórn. Annar fyrrverandi stjórnandi Haga rekur í dag hina sögufrægu verslun Hamleys í London.

Þegar maður lítur til baka frá því maður var 29 ára að teikna upp Haga á töflu í Skútuvogi þá hugsar maður: Þvílík saga! Stór partur af sögunni er hið frábæra starfsfólk sem vann að uppbyggingu félagsins. Margir þeirra starfsmanna eru enn við störf fyrir þær þúsundir nýrra hluthafa sem eignuðust fyrirtækið í gær. Við þá vil ég segja: „Take good care of the old lady."




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×