Lífið

Havarí víkur fyrir hóteli

Svavar Pétur Eysteinsson og Berglind Häsler í versluninni Havaríi.fréttablaðið/valli
Svavar Pétur Eysteinsson og Berglind Häsler í versluninni Havaríi.fréttablaðið/valli

Menningarafurðastöðin Havarí hættir starfsemi í Austurstræti 6 laugardaginn 29. janúar. „Leigusamningurinn rennur út um mánaðamótin. Þetta vofði alltaf yfir,“ segir Svavar Pétur Eysteinsson í Havaríi, en til stendur að opna hótel þar sem Havarí stendur núna.

Sautján mánuðir eru síðan Havarí opnaði og á þeim tíma hefur heilmikið verið um að vera. „Þetta er búið að vera mjög skemmtilegt. Okkur hefur tekist að halda virku menningarstarfi þarna með myndlistarsýningum og tónleikum í hverri viku,“ segir Svavar Pétur.

„Þetta er búið að vera mjög krefjandi og ágætt að fá smá hvíld yfir svartasta skammdegið, fara inn í hýðið og horfa í kringum sig og sjá hvað við viljum gera. Við viljum opna aftur í einhverri mynd á einhverjum stað.“ Líklegt er að það verði annars staðar í miðbænum í vor.

Spurður um hvernig reksturinn hefur gengið segir Svavar: „Þetta er engin gullnáma en þetta ber sig, þótt ótrúlegt megi virðast. Þetta átti fyrst að vera þriggja mánaða tilraunaverkefni en við héldum alltaf áfram. En við verðum að játa að ferðamennirnir yfir sumartímann hafa gert okkur kleift að halda þessu úti yfir svörtustu vetrarmánuðina.“

Kveðjuhátíð verður haldin næstu tvær vikurnar með tilheyrandi útsölu. Lokatónleikarnir verða 29. janúar kl. 16 þegar Prinspóló og FM Belfast spila. - fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×