Innlent

Icesave reikningurinn gæti lækkað

Jónas Margeir Ingólfsson skrifar
Ætla má að kostnaður þjóðarbúsins vegna Icesave reikningana lækki úr fimmtíu milljörðum króna í um tuttugu. Talið er að skilanefnd Landsbankans fái mun hærra verð fyrir Iceland-keðjuna en ætlað var, en þeir fjármunir fara að hluta upp í Icesave kröfurnar.

Iceland keðjan, sem er að stærstum hluta í eigu skilanefndar Landsbankans, er nú talin dýrmætari en áður var reiknað með. Samkvæmt heimildum fréttastofu hafa margir fjárfestar haft samband við skilanefnd Landsbankans og sýnt Iceland-keðjunni mikinn áhuga.

Í krónum talið hefur því virði eignarinnar aukist um nítíu og tvo milljarða, eða um helming, en ólympíuleikarnir hafa haft jákvæð áhrif á ætlaða afkomu verslanareksturs í Lundúnum.

Þeir fjármunir sem fást fyrir sölu Iceland-keðjunnar ganga að hluta til upp í kröfur Breta og Hollendinga vegna Icesave reikninga Landsbankans en samkvæmt heimildum fréttastofu má ætla að kostnaður þjóðarbúsins lækki um allt að þrjátíu milljaða.

Almennt er talið að kostnaður þjóðarbúsins verði um það bil fimmtíu milljarðar, ef Icesave-samningarnir verða staðfestir. Þannig getur kostnaðurinn lækkað niður í um tuttugu milljarða ef skilanefnd Landsbankans selur hinum áhugasömu fjárfestum Iceland-keðjuna.

Fulltrúar skilanefndar Landsbankans héldu utan í dag og munu m.a. funda um sölu Iceland-keðjunnar í Lundúnum á morgun og á þriðjudag. Hið formlega söluferli keðjunnar er þó ekki hafið en samkvæmt heimildum fréttastofu fer skilanefndin að verða reiðubúin til þess.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×