Viðskipti innlent

90 Icesave-milljarðar falla á ríkið

Guðný Helga Herbertsdóttir skrifar
Icesave.
Icesave.

Nú er talið að um níutíu og þrjú prósent fáist upp í Icesave kröfur Landsbankans og hafa endurheimtur aldrei verið hærri. Samkvæmt þessu falla rúmlega níutíu og tveir milljarðar á íslenska ríkið. Tölurnar voru kynntar á kröfuhafafundi í Lundúnum fyrr í dag.

Eignasafnið hefur hækkað um tæplega eitthundrað og þrjátíu milljarða króna frá því í apríl í fyrra eða um tæplega sjö milljarða á mánuði. Aftur á móti er hér miðað við erlendar myntir en langstærstur hluti eignasafnins er erlendis, eða yfir níutíu prósent, og því í öðrum myntum en íslenskri krónu.

Heildareignir bankans voru metnar á 1138 milljarða í September. Forgangskröfur eru 1319 milljarðar, stærstur hlutinn er vegna Icesave. Það sem útaf stendur er um eitthundrað og áttatíu milljarðar króna. Hér er miðað við íslenska krónu sem hefur styrskt nokkuð síðustu mánuði. Sé miðað við hana eru endurheimtur áætlaðar 86% og hafa því lækkað samfara styrkingu krónunnar.

Sé hinsvegar miðað við erlendar myntir eru endurheimtur bankans um 93% af forgangskröfum og hafa aldrei verið hærri. Það sem útaf stendur þá eru rúmlega níutíu og tveir milljarðar króna. Samkvæmt heimildum fréttastofu er það í athugun hvort kröfurnar verði gerðar upp í erlendum myntum.

Sérfræðingar sem fréttastofa ræddi við í dag segja það raunar réttara að miða við endurheimtur í erlendum myntum og því séu þetta afar jákvæð tíðindi fyrir íslenska ríkið.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×