Innlent

Telur ummæli Sveins Andra um barnaníð ekki sæma lögmanni

Sveinn Andri segir að Facebook-siðan hans sé ekki fyrir teprukerlingar og þá sem séu uppfullir af vandlætingu og skinhelgi.
Sveinn Andri segir að Facebook-siðan hans sé ekki fyrir teprukerlingar og þá sem séu uppfullir af vandlætingu og skinhelgi.
Hæstaréttarlögmaður gagnrýnir Svein Andra Sveinsson, hæstaréttarlögmann, fyrir ummæli hans á samskiptavefnum Facebook. Þar sagðist Sveinn Andri upplifa það sem höfnun að hafa ekki verið áreittur kynferðislega af presti í æsku og bætti broskalli við.

Kynferðisbrot gegn börnum hafa talsvert verið til umræða undanfarnar vikur enda mörg gömul mál verið að koma upp á yfirborðið. Þorbjörg I. Jónsdóttir, hæstaréttarlögmaður, sagði í síðdegisútvarpinu á Rás 2 í dag erfitt að segja afdráttarlaust til um hvort ummælin brjóti í bága við siðareglur lögmanna. Sjálfur segir Sveinn Andri að síðan hans sé ekki fyrir teprukerlingar og þá sem séu uppfullir af vandlætingu og skinhelgi.

Gantast með alvarlegt mál

Þorbjörg benti á að í siðreglum lögmanna sé fjallað um góða lögmannshætti og í 2. grein sé talað um að lögmaður skuli gæta heiðurs lögmannastéttarinnar, jafnt í lögmannsstörfum sínum sem öðrum athöfnum. „Þannig að siðareglurnar eiga ekki eingöngu við þegar við erum að vinna sem lögmenn. Þarna er Sveinn Andri að tjá sig á Fésbókinni sinni. Þannig að mér finnst að þessi regla geti allt eins átt við það sem hann segir þar. Þessi ummæli eru ekki sæmandi hæstaréttarlögmanni."

Þá sagði hún: „Mér finnst það mjög algengt í mínum störfum sem lögmaður að fólk samkenni einn lögmann við annan þannig að um leið og einn lögmaður gerir eitthvað sem telst vera ámælisvert þá er það látið yfir okkur hina ganga. Mér finnst því skipta máli hvernig kollegar mínir koma fram í fjölmiðlum eða annars staðar. Þarna er auðvitað verið að tala um mjög alvarleg mál."

Skortir húmor

Fjölmargir hafa lagt orð í belg á síðu Sveins Andra í dag og sitt sýnist hverjum. Sjálfur bætti hann eftirfarandi athugasemd við seinnipartinn í dag: „Af gefnu tilefni skal áréttað að feisbók þessi er ekki við hæfi hræsnara, teprukjellinga og annarra sem uppfullir eru af heilagri vandlætingu og skinhelgi. Svo ekki sé minnst á þá sem ekki hafa skopskyn."

Hægt er að skoða Facebook-síðu Sveins Andra hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×