Viðskipti innlent

Lögregla rannsakar á ný sölu SPRON-bréfa

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Stjórnarmenn og starfsmenn SPRON seldu bréf þegar verðið var í hámarki sumarið 2007. Almenningur vissi ekkert hverjir væru að selja.
Stjórnarmenn og starfsmenn SPRON seldu bréf þegar verðið var í hámarki sumarið 2007. Almenningur vissi ekkert hverjir væru að selja.

Efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra hefur nú fjögur mál til rannsóknar tengd sölu stjórnarmanna og tengdra aðila á stofnfjárbréfum í SPRON sumarið 2007 vegna gruns um innherjaviðskipti, samkvæmt upplýsingum fréttastofu. Meðal annars er um að ræða mál Gunnars Þórs Gíslasonar, fyrrverandi stjórnarmanns í SPRON, en hann seldi bréf fyrir á annan milljarð króna.

Efnahagsbrotadeild RLS hafði áður hætt við rannsókn þar sem Fjármálaeftirlitið taldi á sínum tíma að viðskiptin hefðu ekki stangast á við lög.

Viðskiptablaðið greinir í dag frá því að kaupendur bréfanna hafi falið lögmönnum sínum að kanna aðdragandann að sölu bréfanna. Stjórn SPRON ákvað á fundi hinn 17. júlí 2007 að skrá sparisjóðinn á markað þá um haustið. Eftir fundinn var markaður með viðskipti með stofnfjárhluti í sparisjóðnum opinn í rúman mánuð og á þessum tíma voru seld stofnjárbréf í SPRON fyrir á fimmta milljarð króna sem var margfaldað raunvirði bréfanna. Í raun myndaðist verðbóla með stofnfjárbréfin sem sprakk svo síðar um haustið þegar SPRON var skráð á markað. Þessi viðskipti hafa síðan dregið dilk á eftir sér því kaupendur bréfanna sitja eftir með sárt ennið. Verðlaus bréf og skuldir vegna kaupanna, en í mörgum tilvikum lánaði sparisjóðurinn sjálfur fyrir kaupunum.

Eiginkona sparisjóðsstjórans seldi bréf

Meðal seljenda stofnfjárbréfa voru þrír stjórnarmenn í SPRON, eiginkona sparisjóðsstjórans, Guðmundar Haukssonar, dóttir stjórnarmanns í SPRON og starfsmenn SPRON, en kaupendur vissu ekki á þessum tíma hverjir seljendurnir væru. Kaupendur bréfanna greiddu yfirverð fyrir þau en stofnfjárbréfin lækkuðu hratt í verði eftir skráningu sparisjóðsins á markað hinn 23. október 2007. Á tímabilinu 23. ágúst til 23. október var markaður með stofnfjárbréf lokaður.

Viðskiptablaðið greinir frá því í dag að það hafi ekki aðeins verið stjórnarmenn í SPRON sem hafi selt stofnfjárbréf því Össur Skarphéðinsson, núverandi utanríkisráðherra og þáverandi iðnaðarráðherra seldi öll stofnfjárbréfin sín, 10 milljónir hluta að nafnvirði. Össur Skarphéðinsson sagðist í samtali við fréttastofu hafa selt bréf í SPRON fyrir 62 milljónir árið 2007. Hann hafi hagnast um 30 milljónir króna á sölunni.

Árni Þór Sigurðsson, þingmaður Vinstri grænna, var einnig meðal seljenda en hann seldi bréf fyrir tæplega 1,3 milljónir að nafnvirði og hefur fengið 5,2 til 9 milljónir króna fyrir bréfin miðað við markaðsvirði þeirra á þeim tíma. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu er sala stjórnmálamanna á stofnfjárbréfum ekki til rannsóknar hjá efnahagsbrotadeild.




















Fleiri fréttir

Sjá meira


×