Innlent

Flugfélagið er sátt og ætlar að byggja sjálft

Flugfélag Íslands hyggst ráðast í endurbætur á húsakosti sínum við Reykjavíkurflugvöll í ljósi ákvörðunar yfirvalda um að ekkert verði af nýrri samgöngumiðstöð.
Flugfélag Íslands hyggst ráðast í endurbætur á húsakosti sínum við Reykjavíkurflugvöll í ljósi ákvörðunar yfirvalda um að ekkert verði af nýrri samgöngumiðstöð.

„Það er ánægjuefni að niðurstaða sé komin,“ segir Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands.  Borgarstjóri og samgönguráðherra hafa ákveðið að samgöngumiðstöð rísi ekki í Vatnsmýri. Rætt hefur verið um slíka framkvæmd í áratug og undirbúningur staðið í sex ár.

Á meðan hefur Flugfélagið setið og beðið og farþegar þess mátt gera sér lúinn og þröngan húsakostinn við Reykjavíkurflugvöll að góðu. Sem dæmi um ástand mála var hluti af starfsemi félagsins rekinn í gámum síðastliðið sumar.

Árni segir að þar sem yfirvöld hafi áformað byggingu samgöngumiðstöðvarinnar hafi ekki verið ráðist í kostnaðarsamar endurbætur á húsakynnum félagsins og þaðan af síður í nýbyggingu. Nú sé ný staða uppi.

„Nú förum við í gegnum málið og ég sé fyrir mér bæði endurbætur á núverandi húsnæði og viðbyggingu,“ segir Árni. Einnig verði hugað að öðrum þáttum, líkt og malbikun bílastæðis sem ekki þótti borga sig að ráðast í vegna yfirvofandi flutninga í samgöngumiðstöðina.

„Já, já, alveg hiklaust,“ svarar Árni spurður hvort aðrir flugrekendur fái inni í stærri og endurbættum húsakynnum Flugfélagsins. 

Í hönd fara viðræður við skipulagsyfirvöld um mögulegar framkvæmdir.

bjorn@frettabladid.is



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×