Skoðun

Heilbrigðisþjónusta í heimabyggð

Jón Bjarnason skrifar
Öflug heilbrigðisþjónusta er lykill að jafnræði byggðarlaga, öryggi þeirra og búsetuskilyrðum. Fram komnar tillögur um stórfelldan niðurskurð í rekstri heilbrigðisstofnana mæta að vonum mikilli andstöðu um land allt. Engum dylst þó að nú þarf að spara í öllum ríkisrekstri.

Það sem deilt er á er ekki síst skortur á samráði og lýðræðislegri umræðu. Stjórnvöld hafa nú til skoðunar hvernig gagnrýni verður mætt og innan ríkisstjórnarinnar er vilji til að koma til móts við framkomna gagnrýni.

Í ályktunum sem borist hafa frá fundum víðs vegar um landið er sérstaklega fundið að því að tillögur um niðurskurð nú séu settar fram án samráðs við íbúa og starfsmenn þeirra stofnana sem þjónustuna veita. Hér skiptir miklu að árið 2003 voru lagðar niður stjórnir heilbrigðisstofnana sem skipaðar voru fulltrúum sveitarfélaga og starfsmanna.

Það er alls ekki ætlunin að halda því hér fram að ráðgefandi stjórnir hefðu getað komið í veg fyrir allan niðurskurð í heilbrigðiskerfinu en með aðkomu þessara stjórna hefði mátt finna þeim annan og farsælli farveg þar sem meira jafnræðis hefði gætt milli byggðarlaga. Við sem höfum að undanförnu farið um kjördæmin og fengið heilbrigðisumræðuna beint í æð á heimavelli vitum hvað er í húfi fyrir fólkið og byggðirnar í landinu. Í litlum samfélögum eru tugir starfa í hættu og lakari þjónusta mun auka á misrétti landshluta og skerða búsetuskilyrði. Við því megum við síst nú um stundir.

Þegar þáverandi heilbrigðisráðherra lagði stjórnir heilbrigðisstofnana niður árið 2003 var því mótmælt og sá sem hér skrifar benti meðal annars á lýðræðislegt mikilvægi þessara stofnana og mikilvægi þess að halda tengslum stofnananna við umhverfi sitt, neytendur og samfélag. Rök fyrir þessari ákvörðun voru óljós og helst þau að tryggja miðstýringu ráðuneytis í sessi.

Með því sem nú á sér stað eru komnir fram þeir alvarlegu vankantar sem bent var á í umræðunni 2003. Það er því vel að á Alþingi liggur nú frammi tillaga um að endurvekja stjórnir heilbrigðisstofnana og samþykkt þess gæti orðið liður í þeirri sáttagerð sem nú þarf að verða um fyrirkomulag og sparnað á heilbrigðissviði.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×