Innlent

„Maður sem á tvö svöng börn er hættulegur“

Valur Grettisson skrifar
Sturla Jónsson mætti á mótmælin.
Sturla Jónsson mætti á mótmælin. Myndir/ Valur Grettisson

„Það er bara spurning hvenær það sýður upp úr," sagði Sturla Jónsson vörubílstjóri sem mótmælti ríkisstjórninni á Austurvelli. Þar eru á fimmta hundrað mótmælenda.

Fólk slær á tunnur við þinghúsið og myndast því gríðarlegur hávaði.

Sturla kom heim á dögunum eftir að hafa verið í vinnu í Noregi. Hann segist hafa snúið aftur af heilsufarsástæðum.

Á meðan fréttamaður Vísis ræddi við Sturlu kom Hummer-jeppi keyrandi fram hjá mótmælendunum sem lömdu tunnurnar af krafti.



Það var gott á milli mótmælanda og lögreglumannanna sem spjölluðu saman.Mynd/ Valur Grettisson

„Maður sem á svöng börn er hættulegur," sagði Sturla sem er sannfærður um að önnur bylting í ætt við búsáhaldabyltinguna sé í uppsiglingu. Hann segir fjölskyldurnar í landinu vera búnar að fá nóg.

„Annars fékk ég mér snittur í gær," sagði Sturla sem gerðist boðflenna í Listasafni Íslands í gærkvöldi. Þar var verðlaunaafhending á vegum Norðurlandaráðsins og þurfti boðsmiða til þess að komast inn.

Sturla segist hafa verið með boðsmiða, honum var engu að síður fylgt út af lögreglunni.





Lögreglan á leiðinni að finna manninn með áfengisvandann.Mynd/ Valur Grettisson

„Ráðamenn þjóðarinnar gáfu mér verulega illt auga þennan klukkutíma sem ég var þarna," sagði Sturla að lokum.

Það var þá sem kona með eyrnatappa leitaði til þriggja lögreglumanna sem stóðu álengdar og fylgdust með mótmælunum. Þeir fylgdu henni inn í þvögu af fólki þar sem drukkinn maður stóð. Hann hraðaði sér strax í burtu þegar lögreglan nálgaðist.





Það var á fimmta hundrað manns á Austurvelli um klukkan hálf þrjú í dag.Mynd/ Valur Grettisson

„Þetta var einhver maður sem átti við alvarlegt áfengisvandamál að stríða," sagði konan við fréttamann þar sem hann náði tali af henni við styttuna af Jóni Sigurðssyni.





Hummer-bifreiðin lullaði hægt framhjá mótmælendunum.Mynd/ Valur Grettisson

Þegar fréttamaður fór af vettvangi var á fimmta hundrað manns að mótmæla. Um hundrað manns slógu tunnurnar af miklu afli sem skapaði mikinn hávaða.

Það er ljóst að hávaðinn hefur ekki farið framhjá Alþingismönnum.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×