Viðskipti innlent

Hefðu getað lækkað Icesave kröfur verulega

Ingimar Karl Helgason skrifar

Íslensk stjórnvöld hefðu getað takmarkað kröfur vegna Icesave reikninga um tugi ef ekki hundruð milljarða, með frumvarpi til laga sem lá fullbúið í viðskiptaráðuneytinu, í ársbyrjun 2008. Ráðherra þorði hins vegar ekki að leggja frumvarpið fram vegna óróleika á mörkuðum.

Enn er ósamið við Breta og Hollendinga vegna Icesave reikninga Landsbankans; en bankinn safnaði, fyrir hrun, hundruðum millarða króna í innlán í þessum löndum. Fram kom í vikuritinu Fréttatímanum á dögunum, að kröfur í Landsbankans, vegna svonefndra heildsöluinnlána og peningamarkaðsinnlána, geti numið 200 milljörðum króna. Mikið var um að sveitarfélög í Bretlandi og sjóðir stéttarfélaga legðu fé inn á Icesave með þessum formerkjum.

Í tilskipun Evrópusambandsins um innistæðutryggingar, er heimild til að undanskilja heildsöluinnlán, tryggingavernd.

Þetta vissu menn hér, og var í gangi vinna við að breyta lögum um tryggingasjóð innistæðueigenda og fjárfesta; meðal annars að þessu leyti; að undirlagi Björgvins G. Sigurðssonar. Samin voru drög að frumvarpi og fékk rannsóknarnefnd Alþingis eintak af því. Það var dagsett í janúar 2008.

Rannsóknarnefndin fékk svör viðskiptaráðuneytis um málið. Þar segir að ráðherrann hefði ákveðið að ekki væri ráðlegt að leggja fram frumvarp um þetta að svo stöddu. Það gæti leitt til frekari óróleika á fjármálamörkuðum, og jafnvel skapað hættu á áhlaupi á banka og sparisjóði.

Málið var samt áfram rætt; til dæmis í samráðsnefnd um fjármálastöðugleika langt fram á vor 2008; en niðurstaðan varð hin sama. Rannsóknarnefnd Alþingis vekur athygli á því í skýrslu sinni, að ekkert komi fram um þetta mál í fundargerðum ríkisstjórnarinnar. Björgvin sagði samt við nefndina að forsætisráðherra hefði gert tillögu um að frumvarpið yrði ekki flutt. Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, sagði við nefndina að sér hefði ekki verið kunnugt um frumvarpið, en Árni M. Mathiesen, fyrrverandi fjármálaráðherra, mundi samt sem áður eftir umræðu um málið í ríkisstjórn.









Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×