Innlent

Árni spyr hvort Svandís sé haldin mannvonsku

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra var sökuð á Alþingi í dag um að vera enn að leggja steina í götu framkvæmda. Árni Johnsen, þingmaður Sjálfstæðisflokks, spurði hvort aðgerðir Svandísar byggðust á mannvonsku og mannhatri en fékk ákúrur fyrir ummælin frá öðrum stjórnarandstöðuþingmanni.

Framsóknarþingmaðurinn Sigurður Ingi Jóhannsson spurði Svandísi hvort hún áttaði sig á því að seinkanir og stöðvanir, sem hún hefði valdið á framkvæmdum, drægju úr skatttekjum ríkissjóðs og þýddu aukinn niðurskurð. Hann nefndi meðal annars ákvörðun Svandísar að áfrýja til Hæstaréttar þeim dómi Héraðsdóms að hún hefði brotið lög með því að neita að staðfesta aðalskipulag Flóahrepps.

Svandís skýrði ákvörðun sína um áfrýjun með því að það væri sitt mat og ráðuneytisins að leiðsögn héraðsdóms hefði ekki verið nægilega skýr.

Sigurður Ingi benti hins vegar á að búið væri að breyta lögum þannig að nú væri leyft að framkvæmdaaðili greiddi fyrir skipulag.

"Í raun og veru sýnist mér ráðherrann ætla að halda áfram að leggja steina í götu framkvæmda," sagði Sigurður Ingi.

Árni Johnsen sagði að enn einu sinni sigldi umhverfisráðherra gegn sveitarfélögum í landinu og sýndi þeim vanvirðingu, lítilsvirðingu og ofbeldi.

"Það er þessvegna spurning um það hvort að þessi aðför hæstvirts umhverfisráðherra kunni að byggjast á mannvonsku eða mannhatri," sagði Árni.

Svandís kvaðst ekki vilja eiga samskipti með svona orðum. Þau væru þingmanninum til skammar, þinginu til lítilsvirðingar og ekki það sem íslensk þjóð vildi heyra núna.

Siv Friðleifsdóttir sagði ekki hægt að bjóða þjóðinni upp á það að þingmenn væru að saka hvern annan um mannvonsku. Þannig ættu menn ekki að leyfa sér að tala í sal Alþingis, og heyrðust fleiri þingmenn taka undir með Siv með orðunum: Heyr, heyr!



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×