Innlent

Ætla að sniðganga guðsþjónustu við þingsetningu

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Birgitta Jónsdóttir segir að þingmenn Hreyfingarinnar muni sniðganga guðsþjónustuna. Mynd/ GVA.
Birgitta Jónsdóttir segir að þingmenn Hreyfingarinnar muni sniðganga guðsþjónustuna. Mynd/ GVA.
Þingmenn Hreyfingarinnar ætla ekki að vera viðstödd guðsþjónustu þegar að Alþingi verður sett á morgun. Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, segist í samtali við Vísi, gera ráð fyrir að hún, Þór Saari og Margrét Tryggvadóttir muni verða fyrir utan Alþingishúsið á meðan að guðsþjónustan fer fram. Hún vonast til að fleiri þingmenn sláist í hóp þeirra.

„Ég sjálf tilheyri ekki þjóðkirkjunni og hef ekki gert í langa hríð þannig að mér finnst það bara hræsni að vera að mæta í einhverja svona guðsþjónustu," segir Birgitta. Hún virði þó ef aðrir vilji mæta til guðsþjónustu.

Í pistli á vefritinu Smugunni skorar Freyr Rögnvaldsson, félagi í VG, á þingmenn flokksins, að sniðganga messu í Dómkirkjunni við þingsetninguna. Árni Þór Sigurðsson, þingflokksformaður VG, segist ekki líta svo á að athöfnin í Dómkirkjunni hafi neitt með trúfrelsi að gera. Það sé hefð fyrir þessari athöfn en fólk ráði því sjálft hvort það mæti.

Við þingsetningu í fyrra sniðgengu þingmenn Hreyfingarinnar og Lilja Mósesdóttir, þingmaður VG, guðsþjónustuna.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×