Innlent

Landeyjahöfn „eitt stórt klúður“

Erla Hlynsdóttir skrifar
Grétar Mar var andvígur gerð Landeyjahafnar.
Grétar Mar var andvígur gerð Landeyjahafnar. Mynd: E.Ól.

„Þetta er bara eitt stórt klúður," segir Grétar Mar Jónsson, fyrrverandi þingmaður Frjálslynda flokksins, sem varaði mjög við byggingu Landeyjahafnar fyrir Herjólf. Grétar á að baki þrjátíu ára reynslu sem sjómaður og þegar hann sat á þingi talaði hann gegn því að Landeyjahöfn yrði byggð á þann hátt sem gert var.

„Ég taldi að þetta yrði aldrei nothæft. Núna er að koma í ljós a sandburðurinn er miklu meiri en reiknað var með," segir Grétar. Hann lagði einnig til að fyrst farið var út í þetta verkefni að gamla höfn Herjólfs við Þorlákshöfn yrði varahöfn í minnst ár eftir að Landeyjahöfn væri tekin í notkun.

Utan sandburðar segir Grétar að veður og vindar hafi meiri áhrif á siglingar í Landeyjahöfn en reiknað hefur verið með. „Veðrið hefur verið tiltölulega gott hingað til. Við eigum eftir að sjá miklu meiri vind þarna. Þegar það kemur sunnan- eða suðvestanátt má búast við að þarna verði allt ófært jafnvel þó enginn sandur væri í höfninni," segir hann.

Grétar og aðrir þeir sem gagnrýndu Landeyjahöfn voru útmálaðir sem úrtölumenn og sagðir ala á neikvæðni. Hann telur þó að Elliði Vignisson, bæjarstjóri Vestmannaeyjabæjar, og aðrir þeir sem tóku illa í gagnrýnina hafi í einlægni sinni trúað því að verkefnið yrði farsælt. „Þetta leit ákaflega vel út á teikninborðinu. Þeir trúðu bara verkfræðingunum sem unnu þetta. Mér finnst þetta bara klassískt dæmi um að ekki er hlustað á fólk með reynslu," segir Grétar.

Ástandið er mjög alvarlegt nú að mati Grétars. Eftir að Landeyjahöfn var tekin í notkun var hætt að niðurgreiða flug Flugfélags Íslands til Vestmannaeyja og þess í stað fer Ernir færri ferðir á minni vélum. Sjóleiðin er því sú leið sem reiknað er með að fólk nýti sér í mestum mæli. „Vestmannaeyingar eru komnir afturábak í samgöngumálum um tuttugu, þrjátíu ár," segir Grétar.

Sú leið sem Grétar vildi upphaflega fara var að kaupa nýjan Herjólf sem væri hraðskreiðari þannig að ferðin tæki um níutíu mínútur.

Hann leggur nú til að gerður verði þjónustusamningur sem allra fyrst við Þorlákshöfn þannig að hægt verði að nýta hana þar til endanleg lausn finnst á málinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×