Innlent

Ögmundur er andvígari ESB aðild en áður

Boði Logason skrifar
Ögmundur Jónasson nýr innanríkisráðherra landsins.
Ögmundur Jónasson nýr innanríkisráðherra landsins.
Ögmundur Jónasson nýr innanríkisráðherra í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur var gestur í Silfri Egils í dag. Þar sagðist hann meðal annars vera andvígur því að viðræðuferlið við Evrópusambandið sé að breytast í aðlögurnarferli. Hann sagðist einnig hafa hitt Evu Joly í fyrrakvöld.

Hann var spurður að því að ef það kæmi fram tillaga á alþingi um að hætta aðildarviðræðum við Evrópusambandið, hvað hann myndi þá gera? „Ef það væri greitt atkvæði um þessa tillögu núna myndi ég gera það sama og ég gerði vorið 2009, þá samþykkti ég."

Hann sagðist hins vegar vera sammála Jóni Bjarnasyni í því að viðræðuferlið sé farið að þróast í átt að aðlögunarferli. „Og því er ég andvígur, því ég greiddi atkvæði með viðræðum við sambandið," sagði Ögmundur sem vill að þjóðin eigi að fá að ákveða, eftir að samningur frá sambandinu liggi á borðinu. Þá sagðist hann vera andvígari aðild að ESB en áður.

Ögmundur sagðist einnig hafa hitt Evu Joly í fyrrakvöld og spjallað við hana um rannsóknina á hruninu. „Við fórum yfir þessi mál. Aðkoma hennar, að þessum málum og rannsókn, hefur verið gríðarlega mikilvæg. Menn fundu það að með aðkomu hennar var greinilegt að stjórnvöldum var alvara til að gera allt sem til stæði til að rannsaka málin ofan í kjölinn. Hún hefur haft mikil áhrif og mótað þetta starf og tekið virkan þátt í því."

Hann sagði einnig að hún sé sátt með embætti sérstaks saksóknara. „Hún lofar sérstakan saksóknara og því fólki sem vinnur þarf af dugnaði og krafti. Eftir samtalið sem ég átti við hana þá er hún ekki að fara frá okkur í neinu fússi," sagði Ögmundur.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×