Innlent

Hverri lundapysju tekið fagnandi

Þau Indiana Guðný og Sigþór Yngvi Kristinsbörn fóru með pysjuna í vigtun áður en henni var sleppt.
fréttablaðið/óskar
Þau Indiana Guðný og Sigþór Yngvi Kristinsbörn fóru með pysjuna í vigtun áður en henni var sleppt. fréttablaðið/óskar

Útlit er fyrir að mjög fáar lundapysjur komist á legg í Vestmannaeyjum í sumar. Egg hafa ýmist verið afrækt eða pysjurnar drepist fljótlega eftir klak í öllum þeim holum sem Náttúrustofa Suðurlands fylgdist með í sumar.

Varpárangurinn í Vestmannaeyjum hefur verið slæmur undanfarin ár en aldrei sem nú. Lundaveiði var leyfð í fimm daga í Vestmannaeyjum í ár en lítið var veitt. Varpstofn Vestmannaeyja 2010 er talinn vera um 860 þúsund pör.

Ein og ein lundapysja hefur hins vegar skilað sér niður í Vestmannaeyjabæ þessa dagana og má segja að hverri þeirra sé tekið fagnandi.

Þau Indiana Guðný Kristinsdóttir og Sigþór Yngvi Kristinsson fundu pysju þar sem Lifrar­samlagið stóð áður. Þau fóru með pysjuna í vigtun og mælingu á Náttúrustofuna og slepptu henni síðan.

Indiana segir að í sumar hafi hún og vinir hennar aðeins fundið þessa einu pysju, sem þó var vel haldin og virtist hafa haft nóg að éta. „Í fyrra fundum við miklu fleiri, eitt kvöldið fundum við fimmtán eða tuttugu. Áður fundum við kannski fjörutíu eða fimmtíu á einu kvöldi,“ segir Indiana. - shá



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×