Innlent

Strætó yfirgefur Hlemm

Hlemmur heyrir sögunni til sem skipti- og endastöð Strætós verði tillögur fyrirtækisins að veruleika. Fréttablaðið/Pjetur
Hlemmur heyrir sögunni til sem skipti- og endastöð Strætós verði tillögur fyrirtækisins að veruleika. Fréttablaðið/Pjetur

BSÍ tekur við hlutverki Hlemms sem skipti- og endastöð Strætós bs. verði hugmyndir fyrirtækisins að veruleika. Þá verður hætt akstri stórra strætisvagna um miðborg Reykjavíkur og við taka tíðari ferðir minni vagna.

Einar Kristjánsson, sviðsstjóri þjónustusviðs Strætós, kynnti hugmyndir fyrirtækisins á fundi umhverfis- og samgönguráðs borgarinnar í gær ásamt fulltrúa VSÓ ráðgjafar, en verkfræðistofan kannaði hagkvæmni þess að færa starfsemi Strætós við Hlemm á BSÍ. Einar segir tillögunum hafa verið fagnað á fundinum, enda séu þær í góðum samhljómi við nýja samgöngustefnu Reykjavíkurborgar þar sem unnið sé að því að gera miðborgina æ vistvænni.

„Í umhverfis- og samgönguráði var líka fjallað um að gera Lækjargötu að sameiginlegu svæði, þar sem gatan verði lögð undir sameiginlega umferð gangandi, hjólandi og akandi, án gangstétta. Það var samþykkt að vinna áfram með þær tillögur og þá passar ákaflega illa að vera með tólf metra ferlíki akandi þarna um. Eins og er fara um miðbæinn rúmlega fjörutíu vagnar á klukkustund,“ segir Einar.

Í tillögu Strætós er gert ráð fyrir átta nýjum miðbæjarvögnum sem aki á fimm mínútna fresti, fjórir í hvora átt. „Mjög líklegt er að vagnar verði betur nýttir en í núverandi skipulagi auk þess sem fjölga má vistvænum átta metra rafmagnsvögnum á hringleiðunum í Vesturbænum og á háskólasvæðinu,“ segir í glærum með kynningu fyrirtækisins í gær.

Einar segir að verði hugmyndunum hrint í framkvæmd verði allt annað leiðakerfi en miðborgarinnar óbreytt. Af þessu sé hins vegar verulegur rekstrarlegur ávinningur, enda minnki dýr óþarfa akstur með fáa farþega.

Enn hefur þó ekki verið samið við Kynnisferðir, eigendur BSÍ, um mögulega aðkomu Strætós, en lóðin er ekki í eigu borgarinnar.

Hagkvæmnis­skýrslunni var skilað í janúar og hugmyndirnar þá kynntar fyrir meirihlutanum í borginni. Afráðið var að bíða með ákvörðun um málið til að trufla ekki yfirvofandi sveitarstjórnarkosningar. - óká



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×