Innlent

Magma mun ávallt eiga mest

ásgeir margeirsson
ásgeir margeirsson
Viðræður standa yfir á milli kanadíska orkufyrirtækisins Magma Energy og nokkurra lífeyrissjóða um kaup þeirra á 25 til 40 prósenta hlut í HS Orku. Áætlað verðmæti hlutarins er á bilinu átta til þrettán milljarðar króna. Magma Energy á 86 prósenta hlut í félaginu.

Viðræður hófust í júní. Ásgeir Margeirsson, forstjóri Magma Energy á Íslandi, segir þær skammt komnar. Sumir lífeyrissjóðir hafi haft meiri áhuga en aðrir.

Framtakssjóði Íslands, sem sextán lífeyrissjóðir standa að, bauðst að kaupa hlutinn fyrr á árinu. Forsvarsmönnum sjóðsins fannst verðmiðinn of hár.

Deilur hafa sprottið um kaup Magma Energy í HS Orku og bauð Ross Beaty, forstjóri Magma Energy, ríkinu forkaupsrétt að hlut félagsins í fyrirtækinu auk þess að stytta tímann sem fyrirtækið hefur til orkunýtingar á Reykjanesi.

Atli Gíslason, fulltrúi Vinstri grænna í iðnaðarnefnd Alþingis sagði um helgina það ekki duga og vill að orkuauðlindir landsins séu ótvírætt í eigu opinberra aðila. Þjóðnýting komi til greina.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagðist í samtali við Fréttastofu Stöðvar 2 um helgina enga trú hafa á að meirihluti væri fyrir þjóðnýtingu HS Orku á Alþingi. Hann rifjaði upp að þingmenn Vinstri grænna hefðu beitt sér gegn álveri í Helguvík í fyrra og reyndu enn að bregða fæti fyrir það. „Þetta er auðvitað ein leið fyrir Vinstri græna til þess að koma í veg fyrir að þau áform nái fram að ganga,” sagði hann.

Ásgeir segir málflutning andstæðinga kaupa Magma Energy á meirihluta hlutafjár í HS Orku undarlegan, ekki síst á sama tíma og lífeyrissjóðum standi til boða að kaupa hlut í fyrirtækinu. „Þegar menn eru komnir með, segjum 35 prósenta hlut í fyrirtæki, þá hafa þeir talsverð ítök,“ segir hann en leggur áherslu á að Magma Energy hafi í hyggju að verða ávallt meirihlutaeigandi í HS Orku. - jab


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×