Innlent

HS Orka vill hærra verð

HS orka hitaveita suðurnesja reykjanes
HS orka hitaveita suðurnesja reykjanes
Bæjaryfirvöld í Grindavík og Hafnarfirði hafa ekki lokið breytingum á aðal- og deiliskipulagi á Reykjanesi og í Krýsuvík. Það tefur fyrir fyrirhuguðum tilraunaborunum og raforkuframleiðslu HS Orku. Hægst hefur á framkvæmdum við byggingu álversins í Helguvík af þessum sökum.

Þrjú ár eru síðan HS Orka fór fram á breytingu á aðal- og deiliskipulagi á svæðinu. Samningar standa nú yfir á milli HS Orku og Norðuráls um sölu á raforku til álversins í Helguvík. Viðræður hafa staðið yfir í ár en gengið rólega upp á síðkastið. „Ég vil ekki gefa þessu nafn eða kalla þetta uppnám. Það er verið að reyna að lenda þessu. En málið verður slegið út af borðinu ef engin leyfi fást,“ segir Júlíus Jónsson, forstjóri HS Orku.

Eftir því sem næst verður komist hefur kostnaður HS Orku hækkað mikið upp á síðkastið og hefur það áhrif á arðsemiskröfu fyrirtækisins. Það hefur leitt til þess að nú er samið um hærra raforkuverð til álversins en áður hafði verið rætt um. „Í samningum á sínum tíma var rætt um lágmarksarðsemi. En allur kostnaður hækkaði við hrunið,“ segir Júlíus.

Forstjóri HS Orku segir tafir á aðal- og deiliskipulagi á fyrirhuguðu virkjanasvæði hafa keðjuverkandi áhrif. Erfitt sé að ljúka samningum þegar orka sé ekki til staðar fyrir álverið. Því til viðbótar hafi Orkustofnun enn ekki veitt leyfi til tilraunaborana og stækkun á virkjun HS Orku á Reykjanesi. Vonast er til að leyfi til stækkunar skili sér í næsta mánuði. Ekki liggur fyrir hvenær aðal- og deiliskipulag á fyrirhuguðu virkjanasvæði liggur fyrir en vonast er til að tilraunaboranir hefjist á næsta ári. Tafirnar hafa valdið því að fjármögnun HS Orku er ekki tryggð. „Þegar rætt er við fjárfesta án leyfa er lítið hægt að gera,“ segir Júlíus.

Þegar útlit var fyrir að tafir yrðu á afhendingu raforku til álversins í Helguvík fyrr á árinu hægðist á framkvæmdum þar og hafa þær verið með rólegasta móti í sumar.

Ekki náðist í Ragnar Guðmundsson, forstjóra Norðuráls, við vinnslu fréttarinnar í gær.- jab


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×