Viðskipti innlent

Lýgur til að hreinsa sjálfan sig

Björgólfur Thor Björgólfsson
Björgólfur Thor Björgólfsson

Róbert Wessmann, fyrrverandi forstjóri Actavis, svarar Björgólfi Thor Björgólfssyni fullum hálsi í yfirlýsingu til fjölmiðla en Björgólfur fullyrðir á heimasíðu sinni, btb.is, að Róbert hafi verið vikið úr starfi árið 2008. Róbert segist hafa hætt störfum hjá Act­avis til að snúa sér að eigin fjárfestingum. Aðra ástæðu fráhvarfs hans frá fyrirtækinu segir Róbert vera að hann hafi ekki haft áhuga á því að starfa frekar með Björgólfi.

Á heimasíðu sinni segir Björg­ólfur að við afskráningu á Actavis í Kauphöll hafi orðið ljóst að rekstraráætlanir stjórnenda stóðust engan veginn og víðtæk gæðavandamál í verksmiðju félagsins í Bandaríkjunum hafi komið upp. Við úrlausn þessara vandamála hafi Róbert verið vikið úr starfi.

Í yfirlýsingunni segir Róbert að störf hans hjá Actavis verði helst dæmd út frá því að á stuttum tíma hafi lítið íslenskt fyrirtæki orðið eitt af fimm stærstu í heimi á sínu sviði. Róbert segir það reyndar ekkert nýtt að Björgólfur fari með fleipur og varar við efni síðunnar sem sé vettvangur fyrir fjölmiðla- og áróðursmeistara Björgólfs til að hreinsa skaðað orðspor hans með því að finna blóraböggla fyrir því sem hefur farið miður í fjárfestingum hans. - shá





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×