Viðskipti innlent

Ölvisholt gjaldþrota og eigendur vilja kaupa reksturinn

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Jón Elías Gunnlaugsson, rekstrarstjóri Ölvisholts og fyrrverandi eigandi fyrirtækisins, en hann átti Ölvisholt ásamt Bjarna Einarssyni. Þeir freista þess nú að kaupa reksturinn, en fyrirtækið er gjaldþrota.
Jón Elías Gunnlaugsson, rekstrarstjóri Ölvisholts og fyrrverandi eigandi fyrirtækisins, en hann átti Ölvisholt ásamt Bjarna Einarssyni. Þeir freista þess nú að kaupa reksturinn, en fyrirtækið er gjaldþrota. Vísir.is/pjetur

Íslenska brugghúsið Ölvisholt sem framleiðir m.a Skjálfta, Freyju og Lava bjórana hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta. Skiptastjóri þrotabúsins segir þó að reynt verði að tryggja rekstur brugghússins áfram.

Með úrskurði Héraðsdóms Suðurlands sem kveðinn var upp hinn 30. júlí síðastliðinn var bú Ölvisholts tekið til gjaldþrotaskipta. Christiane Leonor Bahner er skiptastjóri þrotabúsins. Hún segir í samtali við Morgunblaðið í dag að reynt verði að tryggja rekstur brugghúsins áfram. Fréttastofa náði tali af Christiane í morgun en hún var upptekin og ekki í aðstöðu til að veita fréttastofu viðtal.

Bjarni Einarsson, annar fyrrverandi eigenda Ölvisholts og núverandi framkvæmdastjóri fyrirtækisins, sagði í samtali við fréttastofu nú í morgun að brugghúsið yrði rekið áfram í eigu þrotabúsins og vörur þess, bjórar eins Freyja, Skjálfti, Móri og Lava yrðu áfram seldar í vínbúðum og veitingahúsum hér á landi. Hann vildi ekki svara spurningum um hvað það hefði verið sem valdið hefði erfiðleikum í rekstrinum og vildi ekki svara spurningum um gjaldþrotið að öðru leyti.

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu hyggjast fyrrverandi eigendur fyrirtækisins, áðurnefndur Bjarni Einarsson og Jón Elías Gunnlaugsson, sem er rekstrarstjóri fyrirtækisins, reyna að kaupa reksturinn af þrotabúinu og eru ákveðnar þreifingar hafnar í þeim efnum.









Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×