Viðskipti innlent

Sveitarfélög í milljarða ábyrgð fyrir Magma

Böðvar Jónsson.
Böðvar Jónsson.

HS veitur, sem eru í eigu sveitarfélaga á suð-vesturhorninu, eru í tíu milljarða króna ábyrgð, fyrir HS orku, sem er í einkaeigu. Böðvar Jónsson, formaður bæjarráðs Reykjanessbæjar, segir að æskilegt væri að losna við ábyrgðina. HS orka þurfi að greiða skuldirnar upp til að íbúar sveitarfélaganna losni undan ábyrgðunum, en Böðvar hefur ekki áhyggjur af því að ábyrgðin falli nokkurn tímann á íbúa sveitarfélaganna.

Magma Energy Sweden á 98,5 prósenta hlut í HS orku. HS veitur, eru hins vegar að öllu leyti í opinberri eigu; að tveimur þriðju í eigu Reykjanesbæjar. Orkuveita Reykjavíkur á sextán prósent og Hafnafjörður fimmtán. Grindavík og fleiri eiga minna.

Enda þótt að tvö ár séu liðin frá því að Hitaveitu suðurnesja var skipt upp í HS Veitur og HS Orku, er enn sami forstjóri yfir báðum fyrirtækjum. Þá eru skrifstofur beggja á sama stað og Rúv hefur greint frá því að starfsmenn sinni verkefnum fyrir bæði félög.

En það er fleira sem tengir félögin saman. Fram kemur í ársreikningi HS veitna fyrir síðasta ár, að félagið er í upp undir tíu milljarða króna ábyrgðum fyrir HS orku, félag Magma Energy. Þetta er í reikningnum skýrt með því að í lögum um hlutafélög sé kveðið á um að ef kröfuhafi í félagi, sem skipt hefur verið, fái ekki fullnustu kröfu sinnar hjá því félagi sem kröfuna skal greiða, það er HS orku, beri önnur þátttökufélög í skiptingunni, HS veitur, óskipta ábyrgð á skuldbindingum sem stofnast höfðu þegar upplýsingar um skiptingaráætlunina voru birtar.











Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×