Innlent

Harpa verður ekki alveg tilbúin við opnun

Taka þarf niður stálvirkið á suðurhlið hússins sem snýr að Seðlabankanum. Nýtt stálvirki kemur til landsins í desember.fréttablaðið/valli
Taka þarf niður stálvirkið á suðurhlið hússins sem snýr að Seðlabankanum. Nýtt stálvirki kemur til landsins í desember.fréttablaðið/valli
Menning Skemmdir sem uppgötvast hafa í stálvirki glerhjúps á suðurhlið tónlistar- og ráðstefnuhússins Hörpu valda því að húsið verður ekki að fullu tilbúið við opnun þess næsta vor.

„Húsið verður ekki alveg tilbúið en allir salirnir og anddyri verða til reiðu. Það er einungis hluti glerhjúpsins á suðurhlið hússins sem verður ekki tilbúinn en þetta á ekki að hafa áhrif á notkun hússins,“ segir Sigurður Ragnarsson, framkvæmdastjóri verkefnisins hjá Íslenskum aðalverktökum (ÍAV).

Skemmdirnar eru á hornum sexstrendinga sem mynda stálvirki glerhjúpsins á suðurhlið hússins. Sigurður segir að framkvæmdum verði að fullu lokið um mitt næsta sumar. Hafist verður handa við að taka niður gallaða stálvirkið í nóvember en búist er við nýju stálvirki hingað til lands í desember.

Stálvirkið var smíðað af kínverska verktakafyrirtækinu Lingyun sem hefur að sögn ÍAV fallist á að taka á sig tjónið sem af þessu hlýst en það hleypur á hundruðum milljóna. Spurður hvort einhver kostnaður falli á þá innlendu aðila sem að verkefninu standa segir Sigurður: „Við erum að vonast til þess að allt tjónið verði bætt af kínverska fyrirtækinu. Það er eðlilegt að þeir sem valda tjóninu beri ábyrgð á því.“

Að sögn Sigurðar er búið að ganga úr skugga um það að aðrir hlutar stálvirkis hússins séu í lagi. „Hornin sem eru meginorsök þessa vanda eru einungis á suðurhlið hússins þar sem sexstrendingarnir eru.“- mþl


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×