Innlent

Makrílveiðar geta flækt aðildarviðræður við ESB

Auknar veiðar Íslendinga á makríl geta flækt aðildarviðræður við Evrópusambandið og jafnvel orðið til þess að Írar leggist gegn aðild Íslands að sambandinu.

Makrílveiðar Íslendinga hafa aukist hröðum skrefum undanfarin ár og í ár hefur sjávarútvegsráðherra gefið út 130 þúsund tonna kvóta sem í fyrsta skipti er deilt niður á einstök skip. Fyrir fimm árum veiddist nánast enginn makríll á Íslandsmiðum en árið 2006 veiddust um 4.200 tonn, rúm 36 þúsund tonn árið 2007, 112 þúsund tonn, rúm116 þúsund tonn í fyrra og svo 130 þúsund tonn í ár.

Friðrik Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ, segir veiðarnar skipta þjóðarbúið miklu máli.

Verðmætið eykst eftir því sem meira af fiskinum er unninn til manneldis eins og reynt er að gera nú. En það er langt í frá að allir séu ánægðir með þessar veiðar Íslendinga. Ekki hafa náðst samningar við aðrar þjóðir við Atlantshaf um hlutdeild Íslendinga í makrílstofninum, en hann er nýfarinn að ganga í miklu magni inn í íslenska lögsögu.

Aðrar þjóðir veiða tæp 700 þúsund tonn af makríl og veiða aðildarríki Evrópusambandsins mest. Írar kvarta undan því að Íslendingar ætli að veiða þrisvar sinnum kvóta Íra og Maria Damanaki sjávarútvegsstjóri ESB hefur skrifað Stefan Fule stækkunarstjóra sambandsins og segir veiðar Íslendinga geta haft neikvæð áhrif á aðildarviðræður Íslendinga að sambandinu. Framkvæmdastjóri LÍÚ segir að reynt hafi verið að fá rétt Íslendinga sem strandríkis viðurkenndan í um tíu ár í þessu sambandi en ekki tekist.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×