Innlent

Skoðar málshöfðun gegn stjórnendum fjármögnunarfyrirtækja

Efnahagsbrotadeild Ríkislögreglustjóra skoðar nú hvort tilefni sé til að höfða refsimál gegn stjórnendum fjármögnunarfyrirtækja sem báru ábyrgð á gerð ólögmætra lánasamninga sem fólu í sér gengistryggingu.

Um fjörutíu og fjögur þúsund heimili eru með gengistryggð bílalán auk þess sem um sautján prósent heimila eru með slík húsnæðislán. Það voru því tugþúsundir manna sem biðu með óþreyju eftir niðurstöðu Hæstaréttar fyrir um mánuði. Sem kunnugt er dæmdi Hæstiréttur gengistryggingu krónulána ólögmæta þar sem slíkt er brot á sjötta kafla laga um vexti og verðtryggingu. Nú hafa bæði Umboðsmaður Alþingis og Talsmaður neytenda vakið athygli á 17. grein laganna. Í henni kemur fram að þessi brot varði sektum nema þyngri refsing liggi við broti samkvæmt öðrum lögum.

Helgi Magnús Gunnarsson, saksóknari efnahagsbrotadeildar Ríkislögreglustjóra, staðfesti í samtali við fréttastofu að embættið skoði nú hvort tilefni sé til að höfða refsimál gegn stjórnendum fjármögnunarfyrirtækja sem báru ábyrgð á gerð ólögmætra lánasamninga sem fólu í sér gengistryggingu. Stjórnendur gætu þurft að greiða sektir til ríkissjóðs vegna þessa en sektirnar eru ótakmarkaðar. Upphæðirnar fara meðal annars eftir alvarleika brotsins.

Það eru þó ýmis mál sem enn er verið er að skoða, svo sem hvort málið eigi fremur heima hjá sérstökum saksóknara og hvort einhver brot kunni að vera fyrnd en fyrningarfrestur í málum sem þessum er 2 ár.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×