Innlent

Hrun í æðardúnssölu vegna kreppu í Japan

Um þrjú tonn af æðardúni eru unnin hér á hverju ári.
Um þrjú tonn af æðardúni eru unnin hér á hverju ári.
Jónas Helgason, formaður Æðarræktarfélags Íslands, segir niðursveiflu á japönskum fjármálamarkaði valda því að eftirspurn eftir æðardúni héðan hefur fallið um helming. Sumir framleiðendur hérlendis sætti sig við mikla verðlækkun og nái að selja sínar afurðir.

„Við höfum á engan hátt notið neins af gengisbreytingunni sem hefur orðið vegna kreppunnar hér heima," segir Jónas Helgason, sem kveður eftirspurn eftir æðardúni hafa tekið að dala þegar fyrir hrunið sem varð hér á Íslandi. Í fyrra hafi aðeins verið selt um eitt og hálft tonn af æðardúni miðað við um þriggja tonna framleiðslu í góðu ári. Á meðan safnist upp birgðir.

Jónas játar því að meðal æðardúnsframleiðenda sé nokkur gremja í garð þeirra úr hópnum sem láti útflytjendur hafa dún til að selja ytra á mikið lægra verði en tíðkast hafi. Dæmi séu um að kílóið af dúni hafi verið selt á 40 til 45 þúsund krónur í fyrra. Fyrir hrunið hafi verðið verið allt að 115 þúsund krónur - það svarar til 115 milljóna króna fyrir hvert tonn. Verðfallið nú er þannig afar mikið í erlendum gjaldmiðlum.

„Það er staðreynd að hér eru aðilar sem nýttu sér það að lækka verðið í erlendri mynt til að geta frekar selt dúninn sem þeir voru með. En það hefur sýnt sig í gegnum tíðina að þó að verð lækki svona þá auka menn ekkert söluna," segir Jónas.

Á bilinu 260 til 270 félagar eru nú í Æðarræktarfélagi Íslands. Dúnn finnst að sögn Jónasar á um 400 jörðum. Mestur sé dúnninn á Vesturlandi, sérstaklega við Breiðafjörð. Margar niðursveiflur hafi riðið yfir markaðinn á liðnum áratugum.

„Þessi kreppa fer að slaga upp í þá mestu sem ég man eftir. Síðast var svona djúp kreppa um og upp úr 1990," segir Jónas sem sér ekki leið fram hjá stöðunni. „Það er náttúrulega ekkert hægt að bregðast við þessu á meðan útflytjendur sem lækka verðið fá dún til sölu frá framleiðendum sem sætta sig við það. Þetta er frjáls markaður."

Formaðurinn bendir þó á að öll él stytti upp um síðir. „Þessar kreppur sem hafa komið hafa alltaf jafnað sig á endanum. Það er bara spurningin hvenær það verður," segir Jónas Helgason.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×