Innlent

Askan reynist góð í steinsteypu

Aska úr Eyjafjallajökli
Aska úr Eyjafjallajökli

Rannsókn á öskunni úr Eyjafjallajökli hefur leitt í ljós að hún er afbragðs bætiefni í steinsteypu og vinnur gegn alkalívirkni, sem hefur verið helsti veikleiki íslensku steypunnar. Undir Eyjafjöllum eru menn þegar byrjaðir að steypa úr öskunni.

Eftir Vestmannaeyjagosið 1973 töluðu menn um að það hefði kannski leitt ýmislegt jákvætt af sér, eins og betri höfn og meira skjól. Á sama hátt eru menn farnir að tala um það núna að askan úr Eyjafjallajökli, sem menn hafa bölvað hvað mest, sé kannski ekki alveg alslæm.

Bóndinn á Þorvaldseyri, Ólafur Eggertsson, er meðal þeirra sem eiga mikið meira en nóg af nýfallinni ösku í túnfætinum. En því þá ekki að nýta hana? Fyrir þremur vikum ákvað hann í samstarfi við múrarameistara að prófa hana sem steypuefni þegar leggja þurfti nýtt gólf á skemmu, sem hýsa á repjuolíuverksmiðju. Askan var notuð 100 prósent á móti sementi. Útkoman?

"Þetta var mjög gott að vinna þetta og múrarinn sagðist bara ekki hafa komist í betra efni," segir Ólafur og bætir við að gólfið sé spegilslétt og mjög sterkt og fínt að sjá.

Samanburðarprófanir á rannsóknarstofu verkfræðistofunnar Mannvits sýna að í venjulegri steypu komu fram litlar sprungur en ef ösku var blandað í steypuna sáust engar slíkar sprungur. Askan úr Eyjafjallajökli reynist vera glerkennd og rík af kísilsýru.

Þorbjörg Hólmgeirsdóttir, sviðsstjóri rannsóknarstofunnar, segir að fyrstu niðurstöður bendi til þess að askan geti verið áhugavert bætiefni í steinsteypu og slegið á alkalívirkni. Hún gæti þessvegna komið í stað innflutts bætiefnis.

Þessar niðurstöður hafa þegar vakið athygli út fyrir landsteinana og nýlega kom til landsins danskur steypusérfræðingur sem hyggst í samvinnu við Mannvit rannsaka Eyjafjallaöskuna og aðra íslenska ösku nánar, og telur Þorbjörg þannig hugsanlegt að eldgosið leiði af sér útflutningsvöru.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×