Innlent

Bílaleigur skila bílum

Bílaleigufyrirtækið Hertz neyddist til að skila hundrað af tæplega fjögur hundruð bifreiðum sem félagið keypti af Toyota umboðinu á Íslandi, vegna samdráttar á bílaleigumarkaði. Pantanir hafa dregist saman um fimmtung miðað við árið í fyrra.

Bílaleigumarkaðurinn á Íslandi var ansi fjörlegur í fyrra en þá voru nánast allir bílar upppantaðir. Margir bjuggust við að sumarið í ár yrði jafn gott ef ekki betra en þá kom eldgosið í Eyjafjallajökli.

Bílaleigan Hertz festi þannig kaup á rúmlega 360 bifreiðum af Toyota umboðinu á Íslandi í vetur til að stækka bílaflotann fyrir sumarið. Sumarið hefur hins vegar ekki staðið undir væntingum og allt 20 prósenta samdráttur varð í bókunum eftir eldgos.

„Við gátum til dæmis skilað bílum til Toyota sem að þeir tóku til baka af okkur. Við leystum það þannig," segir Sigfús Bjarni Sigfússon, framkvæmdastjóri Hertz á Íslandi. Um hundrað bíla var að ræða.

Önnur bílaleigufyrirtæki hafa þurft að grípa til svipaðra aðgerða og skilað bílum.

Menn eru þó bjartsýnir og telja að markaðurinn taki kipp upp á við í lok sumars.

„Haustið lofar góður og við vonum að september og október komi vel út og svo erum við bara mjög bjartsýn fyrir næsta sumar," segir Sigfús.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×