Innlent

Fallið frá kyrrsetningu eigna

Hafnsteinn Hauksson skrifar
Fallið hefur verið frá kyrrsetningu eigna Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, Jóns Sigurðssonar og Hannesar Smárasonar eftir að að dómstólar felldu úr gildi ákvörðun sýslumanns um kyrrsetningu eigna fjórða mannsins, Skarphéðins Bergs Steinarssonar.

Um miðjan síðasta mánuð fór skattrannsóknarstjóri fram á að eignir fjórmenninganna yrðu kyrrsettar vegna meintra brota FL Group á lögum um virðisaukaskatt.

Kyrrsetningin fór fram á grundvelli nýrrar lagaheimildar í lögum um tekjuskatt sem heimilar kyrrsetningu eigna til að tryggja skattgreiðslur, án þess að höfða þurfi staðfestingarmál. Hins vegar mega þolendur kyrrsetningarinnar fara með ágreiningsmál um lögmæti hennar fyrir dómstóla. Það gerði Skarphéðinn og var kyrrsetningin felld úr gildi fyrir Hæstarétti í síðustu viku. Dómstóllinn taldi að í lögum um tekjuskatt væri ekki að finna heimild til kyrrsetningar vegna brota á lögum um virðisaukaskatt og því hafi skort lagaskilyrði fyrir kyrrsetningunni.

Snorri Olsen, tollstjóri, segist í samtali við fréttastofu ekki tjá sig um einstök mál, en staðfestir að í sambærilegum málum og Skarphéðins Bergs hafi verið óskað eftir því við sýslumann að kyrrsetning eigna málsaðila verði tekin upp að nýju og fallið verði frá henni.

Bryndís Pétursdóttir, skattrannsóknarstjóri, vildi ekki veita fréttastofu viðtal vegna málsins. Þess ber þó að geta að ráðist var í kyrrsetningu eigna fjórmenninganna í tíð Stefáns Skjaldarssonar sem sinnti embættinu í fjarveru Bryndísar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×