Innlent

Deilur tefja fyrir styttingu hringvegarins

Tillögur Vegagerðarinnar um styttingu hringvegarins á tveimur stöðum á Norðurlandi hafa strandað á viðkomandi sveitarstjórnum. Um er að ræða annars vegar styttingu um sex kílómetra í Skagafirði og hins vegar fjórtán kílómetra styttingu nálægt Blönduósi, hina svokölluðu Húnavallaleið.

Eitt af markmiðum þeirrar samgönguáætlunar sem nú er í gildi er að stytta leiðir á aðalvegum. Á hringveginum milli Reykjavíkur og Akureyrar hefur helst verið bent á þessa tvo kosti í þeim efnum en viðkomandi sveitarfélög vilja halda þeim utan aðalskipulags.

„Sveitarfélögin hafa verið að vinna aðalskipulag á þessum svæðum og vegir eru byggðir samkvæmt skipulagi. Við lítum svo á að það sé hlutverk okkar að koma því á framfæri að þetta sé markmið Vegagerðarinnar til lengri tíma litið. Sveitarfélögin hafa hins vegar hafnað þessu á grundvelli hagsmuna sveitarfélagsins," segir Magnús Valur Jóhannsson, svæðisstjóri hjá Vegagerðinni.

Vegagerðin lítur svo á að samkvæmt vegalögum beri sveitarfélögunum að hafa tillögurnar í aðalskipulagi. Ef tillaga frá Vegagerðinni er talin auka umferðaröryggi er sveitarfélögum óheimilt að fara ekki að þeim ráðleggingum. Þær framkvæmdir sem nú er deilt um eru báðar taldar auka öryggi þó að sveitarstjórnirnar setji spurningarmerki við þær fullyrðingar.

„Þessi vinna byggir á gildandi svæðisskipulagi fyrir svæðið. Þar er ekki gert ráð fyrir þessum vegaframkvæmdum og stjórnvöld hafa hvergi markað þá stefnu að fara skuli í þessa framkvæmd. Við getum því ekki sett eitthvað inn í skipulag sem hvergi hefur verið ákvarðað að gera," segir Ágúst Þór Bragason, forseti bæjarstjórnar hjá Blönduósbæ, og leggur áherslu á að skipulagið sé samráðsverkefni ýmissa aðila en ekki einnar stofnunar.

Íbúar í Varmahlíð og á Blönduósi óttast að mögulegar vegaframkvæmdir hefðu neikvæð áhrif á bæjarfélögin þar sem umferð um hringveginn færi ekki lengur í gegnum þau. Að auki telja yfirvöld á svæðunum að skipulagsvaldið sé aðallega í þeirra höndum og þeim beri ekki að setja slíkar tillögur í aðalskipulagið.

Sveitarstjórn Skagafjarðar samþykkti aðalskipulag í desember þar sem afgreiðslu á þeim vegarkafla sem deilt er um er frestað. Skipulagið var sent til Skipulagsstofnunar sem afgreiddi það til umhverfisráðuneytisins í janúar en ráðuneytið hefur enn ekki klárað afgreiðslu málsins.

Aðalskipulag Blönduósbæjar er komið skemmra á veg en þar er verið að auglýsa skipulagið. Heimilt er að gera athugasemdir við það til 12. júlí.magnusl@frettabladid.is





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×