Innlent

„Þetta er mjög leiðinlegt“

Mynd/Vilhelm Gunnarsson
Jónmundur Guðmarsson, framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, segir afar leiðinlegt að flokkurinn hafi eytt meiru en það hámark sem stjórnmálaflokkarnir settu um auglýsingakostnað í aðdraganda sveitarstjórnarkosninganna. Skýringin er sú einstök framboð sem ekki áformuðu auglýsingar í landsmiðlum gerðu það á síðustu metrum kosningabaráttunnar og nefnir Jónmundur Kópavog sem dæmi.

Samkomulagið fól í sér að heildarkostnaður hvers flokks vegna auglýsingabirtinga í fjölmiðlum yrði ekki hærri en 11 milljónir króna. Sjálfstæðisflokkurinn sprengdi skalann og auglýsti fyrir 11,8 milljónir.

„Á lokaspretti kosningabaráttunnar þá tekur eitt framboð á vegum Sjálfstæðisflokksins það upp hjá sér að fara að auglýsa í landsmiðlum án þess að gera okkur á flokksskrifstofunni það ljóst þannig að höfðum ekki tök á að bregðast við. Þetta er mjög leiðinlegt en sem betur fer erum við bara rétt að fara yfir mörkin þannig að í grundvallaratriðum stóðst þetta samkomulag vel," segir Jónmundur.

Jónmundur segir samkomulag af þessu tagi sé í eðli sínu gott. Aftur á hóti hafi samkomulag flokkanna í ár ekki verið fullkomið. Hann nefnir sem dæmi að kosningablað Samfylkingarinnar í Reykjavík sem dreift var með Fréttablaðinu hafi ekki verið talið með sem hluti af auglýsingakostnaði flokksins. „Hefði þetta blað verið tekið með hefði það sprengt skalann hjá Samfylkingunni," segir Jónmundur og bendir á að sjálfboðaliðar Sjálfstæðisflokksins hafi dreift samskonar blaði með handafli til borgarbúa.




Tengdar fréttir

Sjálfstæðismenn brutu samkomulag um auglýsingakostnað

Sjálfstæðisflokkurinn braut samkomulag sem stjórnmálaflokkarnir gerðu um auglýsingakostnað í aðdraganda sveitarstjórnarkosninganna. Samkomulagið fól í sér að heildarkostnaður hvers flokks vegna auglýsingabirtinga í fjölmiðlum yrði ekki hærri en 11 milljónir króna að meðtöldum virðisaukaskatti á tímabilinu 29. apríl til og með 29. maí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×