Innlent

Ekkert stripp við Austurvöll

Í stað nakinna kvenna verður nú hægt að líta á Alþingishúsið úr veislusal á þriðju hæðinni.
Í stað nakinna kvenna verður nú hægt að líta á Alþingishúsið úr veislusal á þriðju hæðinni. fréttablaðið/vilhelm
Hvíta perlan, nýr fótboltabar við Austurstræti, verður opnaður fimmtudaginn 10. júní. Þar með verða ákveðin tímamót í miðbæ Reykjavíkur, því Perlan er í húsnæði sem áður hýsti nektarstaðinn Óðal, allt frá 1996.

Í ljósi laga sem taka gildi í júlí, og leyfa ekki nektardans, varð eiganda Óðals, Grétari Inga Berndsen, ljóst að staðurinn þyrfti að skipta um stíl.

„Fyrst ekki má gera hitt lengur þarf maður að gera eitthvað sem má," segir hann. Því hafi verið ákveðið að breyta til fyrir sumarið. Barinn verður opnaður fyrir fyrsta leikinn í komandi heimsmeistarakeppni í fótbolta.

„Það er búið að endurnýja allt og þetta verður best búni sportbar á landinu með risaskjáum á þremur hæðum," segir Grétar, sem hefur fengið nýja félaga í reksturinn og er bjartsýnn á að þetta gangi vel.

Þess má geta að Albert heitinn Guðmundsson, fyrrverandi ráðherra, var kallaður Hvíta perlan á sínum fótboltaárum í Frakklandi og er mynd af frægum hundi hans, Lúsý, hluti af merki staðarins.

- kóþ




Fleiri fréttir

Sjá meira


×