Innlent

Hækka þarf heitt vatn um 37 prósent

Eigi markmið fimm ára áætlunar um fjárþörf Orkuveitu Reykjavíkur (OR) að nást, þarf mikla hækkun á gjaldskrá fyrirtækisins. Á það við um allt nema kalda vatnið. Þar mun gjaldskrá standa í stað.

Guðlaugur Sverrisson, stjórnarformaður OR, segir að þessar hækkanir muni dreifast yfir fimm ár, verði ákveðið að ná markmiðunum. Það sé nýrrar stjórnar að ákveða. Unnið hafi verið að útreikningum miðað við lánasamsetningar og fleira og þeirri vinnu hafi lokið í síðustu viku.

Upplýsingarnar voru lagðar fyrir stjórnarfund í gær, en þær eru svar við fyrirspurn Sigrúnar Elsu Smáradóttur, fulltrúa Samfylkingarinnar í stjórn OR, sem lögð var fram á síðasta stjórnarfundi.

Spurður hvers vegna upplýsingarnar koma fram þremur dögum eftir kosningar segir hann það einfaldlega vera vegna þess að vinnu hafi ekki lokið fyrr. Ágætt hefði verið ef þær hefðu legið fyrir þegar kosið var á laugardag, en það hafi ekki náðst. Vissulega hefði verið hægt að setja meiri kraft í vinnuna, en það hafi ekki verið gert.

„Ég hef rætt það inni í borgarráði að auka þurfi handbært fé og ég er ekkert að fela þetta. Fjárþörfin lá fyrir en ekki var búið að reikna ítarlega út hve mikið þyrfti að hækka gjaldskrá til að ná markmiðum heildarstefnu Orkuveitunnar."

Guðlaugur minnir á að það hafi verið samhljóða niðurstaða fulltrúa meiri- og minnihluta í aðgerðarhópi að hækka gjaldskrár ekki meira á nýliðnu kjörtímabili. Við það hafi verið staðið og því sé það verkefni nýrrar stjórnar að taka ákvörðun um fyrirhugaðar hækkanir.- kóp











Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×