Lífið

Næsta Söngvakeppni verður á íslensku

Páll Magnússon hefur ákveðið að öll lögin í næstu Söngvakeppni Sjónvarpsins verði á íslensku.
Páll Magnússon hefur ákveðið að öll lögin í næstu Söngvakeppni Sjónvarpsins verði á íslensku.

„Röksemdin fyrir þessari breytingu er að Söngvakeppni Sjónvarpsins er fyrst og fremst íslensk söngvakeppni fyrir íslenska áhorfendur," segir Páll Magnússon, útvarpsstjóri. Öll lög í næstu Söngvakeppni Sjónvarpsins verða að vera sungin á íslensku ólíkt því sem hefur verið undanfarin ár.

Páll segir að vegna þrýstings frá Félagi tónskálda og textahöfunda, FTT, hafi verið fallið frá þessari kvöð á sínum tíma. Niðurstaðan af þeirri ákvörðun hafi hins vegar verið vond, fá lög hafi verið sungin á íslensku. „Síðast var aðeins eitt í úrslitaþættinum og það er óviðunandi að okkar mati."

Páll tekur fram að séu lögin sungin á íslensku, og Söngvakeppni Sjónvarpsins notuð sem nokkurs konar forkeppni fyrir Eurovision, taki RÚV þátt í kostnaði við að útfæra sigurlagið á ensku. „En við gætum hugsanlega valið framlagið með allt öðrum hætti þótt sigurlag í Söngvakeppninni sé fundið."

Jakob Frímann Magnússon, formaður FTT, segir afar skiptar skoðanir um þetta mál, bæði innan FTT og samfélagsins alls. „Við virðum sjónarmið Ríkisútvarpsins og treystum því að metnaður þeirra nái ekki aðeins til innlendrar dagskrárgerðar heldur einnig til tryggingar þess marktækasta og best ígrundaða framlags Íslands á alþjóðavettvangi sem okkur ber að stefna að hverju sinni," segir Jakob og vísar þar til Eurovision-lagsins.

„Þetta kann að fara saman en annað tryggir ekki endilega hitt," segir Jakob sem kaus að öðru leyti að tjá sig ekki um málið.- fgg










Fleiri fréttir

Sjá meira


×