Lífið

Fylgir Jóni eins og skugginn

Safnar heimildum um framboð Jóns Gnarr fyrir Besta flokkinn.
Safnar heimildum um framboð Jóns Gnarr fyrir Besta flokkinn.

„Ég er að safna heimildum. Þetta er, held ég, einstakur viðburður í Íslandssögunni,“ segir leikstjórinn Gaukur Úlfarsson sem fylgir grínistanum og frambjóðanda Besta flokksins, Jóni Gnarr, eins og skugginn þessa dagana. „Ég fékk leyfi til að mynda allt þetta ferli. Það er ótrúlega gaman að fá að fylgjast með þessu. Þetta er líka mjög upplýsandi fyrir fólkið í landinu að sjá hvernig þetta allt fer fram.“

Gaukur, sem byrjaði að taka upp í desember, er ekki búinn að ákveða hvað hann ætlar að gera við myndefnið, en nýlega myndaði hann uppistand Jóns í Landnámssetrinu. „Ég er ekki búinn að hugsa það langt. Ég á bara fullt í fangi með að eltast við Jón út um allar trissur,“ segir hann. „Þetta er frábært efni sem ég hef náð, enda er maðurinn einstakur snillingur. Hann stoppar aldrei, hvort sem hann er að segja skemmtilegar sögur eða hugsa upphátt. Hann er ekki bara fyndinn heldur er hann mikill hugsjónamaður.“

Gaukur hefur sjálfur unnið fyrir Besta flokkinn. Spurður hvort eingöngu jákvæð mynd verði dregin upp af Jóni segir Gaukur að hann hafi ekki enn rekist á neina óvænta, neikvæða hlið á Jóni. „Ég held að þjóðin hafi ákveðna hugmynd um hver hann er en svo er hann töluvert mikið öðruvísi en það. Hann er mikið meiri andans maður og hugsuður en ég hefði látið mér detta í hug. En hann er auðvitað fyndnasti hugsjónamaður sem ég hef kynnst.“ - fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×