Innlent

Steinunn Valdís segi af sér

Hjálmar Sveinsson
Hjálmar Sveinsson

Innan borgarstjórnarhóps Samfylkingar er mikið rætt um að Steinunn Valdís Óskarsdóttir, þingmaður flokksins, eigi að segja af sér þingmennsku, að sögn Hjálmars Sveinssonar, sem er í fjórða sæti listans.

Hjálmar var spurður á Útvarpi Sögu á þriðjudag hvort honum fyndist að Steinunn ætti að segja af sér og tekur fram að hann hafi ekki haft frumkvæði að umræðunni.

„Ég svaraði bara undanbragðalaust og sagði það sem mér finnst, að það sé óhjákvæmilegt að hún geri þetta. Hins vegar væri það lúalegt af okkur borgarstjórnarframbjóðendum að fara að krefjast þess núna rétt fyrir kosningar, og ekki okkar hlutverk. Hún hlýtur að komast að þessari niðurstöðu sjálf. Það tekur sinn tíma og ég spái því að það sé ekkert mjög langt í að það gerist, án þess að ég hafi heimildir fyrir því,“ segir hann.

Aðspurður segist Hjálmar ekki sjá nein merki þess að þetta gerist fyrir kosningar á laugardag.

Spurður hvort sama eigi að gilda um Dag B. Eggertsson, oddvita Samfylkingarinnar í borginni, segir Hjálmar þar ólíku saman að jafna. Dagur hafi þegið ríflega fimm milljónir, og takmarkað styrki við 500 þúsund krónur frá hverjum. Að sjálfsögðu sé enginn stikkfrír, en Dagur sé hæfur til að leiða listann.

Steinunn Valdís segist þegar hafa skýrt afstöðu sína til þessa máls. Ekkert samhengi sé milli gjörða hennar og styrkjanna. Afstaða hennar sé óbreytt. - kóþ, bj



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×