Innlent

Vilja sex milljónir til þess að stórbæta samgöngur til Vestmannaeyja

Vestmannaeyjar.
Vestmannaeyjar.

Vestmannaeyjabær og Eimskip hafa gert samkomulag um að ferðum Herjólfs verði fjölgað úr 1360 í 1485 á ári og sigli því 4 ferðir á dag, allt árið.

Bæjarstjóri Vestmannaeyja, Elliði Vignisson, lagði fram minnisblað um mikilvægi þess að ferðum Herjólfs verði fjölgað úr 1360 í 1488 í dag.

Þar kemur meðal annars fram að verði einungis farnar 1360 ferðir liggi fyrir að frá 1. okt til 31. apríl verði fyrstu farþegar til Eyja ekki komnir þangað fyrr en um klukkan eitt eftir hádegi.

Ef 125 ferðum er bætt við eru fyrstu farþegar komnir til Eyja um hálf tíu fyrir hádegi.

Þetta gerir það einnig að verkum að möguleika sveitarfélaga og fyrirtækja til samstarfs svo sem hvað varðar menntun, samnýtingu á heilbrigðisþjónustu og fleira er útilokað eða í besta falli verulega skert samkvæmt minnisblaði bæjarstjórans.

Í minnisblaðinu kemur enn fremur fram að Eimskip hafi að beiðni Vestmannaeyjabæjar reiknað kostnað við fjölgun ferða úr 1360 í 1485. Niðurstaða þeirra reikninga var að brúttó kostnaðarauki yrði um 18 milljónir króna.

Þá segir í tilkynningu frá Vestmannaeyjabæ að bæjarstjórnin og þingmenn suðurlands hafa ítrekað reynt að fá skilning á mikilvægi þessara viðbótaferða hjá samgönguyfirvöldum en vegna niðurskurðar í ríkisfjármálum hafa samgönguyfirvöld ekki getað orðið við slíkri beiðni.

Samkomulagið við Eimskip er háð því að ríkið leggi til 33 prósent af kostnaði, eða 6 milljónir króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×