Innlent

Sumarhús Björgólfs í Portúgal til sölu

Formaður bankaráðs Landsbankans keypti hús fyrir átta hundruð milljónir króna þegar fyrstu merki fjármálakreppunnar gætti á erlendum mörkuðum.
Formaður bankaráðs Landsbankans keypti hús fyrir átta hundruð milljónir króna þegar fyrstu merki fjármálakreppunnar gætti á erlendum mörkuðum.
Sveinn Sveinsson, skiptastjóri þrotabús Björgólfs Guðmundssonar, vinnur nú að því að selja hús auðkýfingsins fyrrverandi í strandbænum Cascais í Portúgal.

Cascais er um þrjátíu kílómetra vestur af Lissabon, höfuðborg Portúgals, og vinsæll sumardvalarstaður á meðal efnaðra einstaklinga. Óvíst er hvað fæst fyrir húsið um þessar mundir. Andvirði sölunnar fer upp í kröfur þrotabús Björgólfs.

Fram kemur í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis að bankaráð Landsbankans veitti Björgólfi níu milljóna evra lán til að kaupa húsið 31. október árið 2007. Það jafngilti 780 milljónum króna á þávirði. Ekki liggja fyrir upplýsingar um húsið. Til samanburðar veitti lánanefnd Glitnis Jóni Ásgeiri Jóhannessyni 800 milljóna króna yfirdráttarlán hjá bankanum í júlí 2008 fyrir kaupum á skíðasetri í Frakklandi.

Í skýrslunni er tekið fram að Björgólfur hafi vikið af fundum á meðan mál honum tengd voru tekin fyrir hjá bankaráðinu.

Það sama gildir um fasteignakaup Björg­ólfs og um önnur viðskipti auðjöfra fyrir hrun að húsið er inni í einkahlutafélagi og veðsett. „Við lítum svo á að við séum með forræði yfir félaginu sem á húsið," segir Sveinn. - jab




Fleiri fréttir

Sjá meira


×