Viðskipti innlent

Eyjafjallajökull: Icelandair fékk 3000 símtöl á dag vegna eldgossins

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Birkir Hólm segir mikilvægt að ná aftur þeim markaði sem tapaðist vegna gossins.
Birkir Hólm segir mikilvægt að ná aftur þeim markaði sem tapaðist vegna gossins.
Um 3000 símtöl bárust á dag í þjónustuver Icelandair fyrstu dagana eftir að gosið í Eyjafjallajökli hófst. Þetta sagði Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair, á Útflutningsþingi á Hilton Nordica Hotel í morgun. Gerðar hafi verið áttatíu breytingar á flugáætlunum félagsins á fjórtán dögum vegna gossins, en Icelandair setti upp sérstakan tengiflugvöll í Glasgow sem allt flug til Evrópu og Bandaríkjanna fór á tímabili um.

Birkir sagði að gert væri ráð fyrir því að tekjutap ferðamannaiðnaðarins vegna eldgossins væri um 30-50 milljarðar króna. Mikilvægt væri að ná þeim markaði til baka sem tapast hefði og snúa neikvæðri umræðu í jákvæða.

Birkir sagði annars að ferðaþjónusta hefði vaxið gríðarlega á undanförnum árum. Árið 2000 hefði um 302 þúsund ferðamenn komið til landsins en árið 2008 hefðu þeir verið um 503 þúsund. Þessi fjölgun hefði orðið þrátt fyrir að krónan hafi á þessu tímabili verið tiltölulega sterk.

Birkir sagði að það væru enn sóknarfæri í ferðamennskunni. Mikilvægt væri að fjölga ferðamönnum sem koma til landsins yfir vetrarmánuði, frá september til maí. Að þessu leyti yrði horft til reynslu Finna en þar komi fleiri ferðamenn á veturna en á sumrin.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×