Innlent

Bótasvikarar gripnir í bólinu á Facebook

Mynd/AFP

„Það er aldrei viðunandi að fólk misnoti velferðarkerfið og sérstaklega ekki á tímum sem þessum," segir Sigríður Lillý Baldursdóttir, forstjóri Tryggingastofnunar ríkisins, þar sem herör var skorin upp gegn bótasvindli.

Að sögn Sigríðar hefur fjöldi bótasvikamála þrefaldast frá því að Tryggingastofnun tók fyrir um ári upp stóraukið eftirlit með samkeyrslu gagna innan stofnunarinnar og athugunum starfsmanna.

Sigríður nefnir sem sérstaklega svæsið dæmi um bótasvindl tvær fimm barna fjölskyldur þar sem fjölskyldufeðurnir hafi skráð sig til málamynda utan heimilisins. Það hafi þeir gert til að fá aukinn barnalífeyri og meðlagsgreiðslur sem þeir sjálfir hafi síðan ekki endurgreitt eins og þeim bæri að gera.

„Okkar eftirlitsfólk fann aðra fjölskylduna inni á Facebook. Það er kona sem á fjögur börn með manninum og eitt með öðrum. Hún segir að maðurinn búi ekki hjá þeim en hann hjálpi þeim af og til. En svo fannst Facebook-síða þessarar konu þar sem hún var með „litla krílið" eins og hún sagði í „mömmu og pabba rúmi" og mynd af henni með barnið og sveran trúlofunarhring. Þá var hún spurð um þennan trúlofunarhring og þetta „rúm mömmu og pabba". Við göngum svona langt," lýsir Sigríður.

Þessi fjölskylda fékk að sögn Sigríðar yfir 700 þúsund krónur á mánuði í bætur. Verulegan hluta þess hafi þau ekki átt rétt á að fá. „Þetta er algerlega óviðunandi. Við hundeltum þetta fólk og látum það ekki í friði," segir forstjóri TR sem kveður eftirlitsstarfinu fjötur um fót að mega ekki samkeyra gögn með gögnum annarra stofnana.

„Við eigum í ákveðnum erfiðleikum en það er verið að vinna að lausn þeirra með félags- og tryggingamálaráðuneytinu og það er skilningur á þessu þar."- gar







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×