Innlent

Borgarstjóri telur „þjóðstjórn“ farsælasta stjórnarformið

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Hanna Birna Kristjánsdóttir vill að allir fimmtán borgarfulltrúarnir komi að stjórn Reykjavíkurborgar. Mynd/ Pjetur.
Hanna Birna Kristjánsdóttir vill að allir fimmtán borgarfulltrúarnir komi að stjórn Reykjavíkurborgar. Mynd/ Pjetur.
Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri kallar eftir þjóðstjórn við stjórn borgarinnar. „Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að stjórnmálin þurfi að breytast. Ég held að það sé kominn timi á það að einbeita sér að því sem sameinar menn en ekki það sem sundrar," segir Hanna Birna.

Hanna Birna segir að undanfarið hafi oft verið unnið þvert á meirihluta og minnihluta í borgarstjórn Reykjavíkur. „Árangurinn af því hefur sannfært mig um að það hefur verið góð leið og mér finnst að við þurfum að ganga lengra með það," segir Hanna Birna. Hún vill að stjórn Reykjavikurborgar verði í höndum allra fimmtán kjörnu borgarfulltrúanna og menn skipti sér ekki upp í hefðbundið átakalið stjórnmálanna, meirihluta og minnihluta. „Ég hef ekki alltaf verið sátt við það vinnulag sem hefur verið og tel að borgarbúar þurfi á kröftum allra borgarfulltrúanna að halda," segir hún.

Hanna Birna segir þó að með þessu sé hún ekki að leggja til að það eigi að taka alla pólitíkina út úr pólitíkinni. „Menn halda áfram að greiða atkvæði um mál sem okkur greinir á um og þá bara vinnur einfaldur meirihluti. Þetta er þekkt erlendis frá og ég held að þessi íslenska átakhefð í stjórnmálum megi alveg taka breytingum," segir Hanna Birna. Hún segist jafnframt telja að það yrði til mikilla bóta fyrir stjórnmálin í heild ef eitthvað stórt pólitískt afl eins og borgarstjórn Reykjavíkur tæki forystu í að fara nýjar leiðir í stjórnmálum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×