Lífið

Iceland Airwaves: „Hæfasti maðurinn ráðinn"

Grímur segist vera með ákveðnar áherslur og finnst tækifærin vannýtt.
Grímur segist vera með ákveðnar áherslur og finnst tækifærin vannýtt.

„Hæfasti maðurinn sem tekinn var í viðtal var ráðinn," segir Anna Hildur Hildibrandsdóttir, framkvæmdastjóri Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar, Útón. Greint var frá því í gær að Grímur Atlason, sveitarstjóri í Dalabyggð, hefði verið ráðinn framkvæmdastjóri tónlistarhátíðarinnar Iceland Airwaves en Útón tók nýverið við rekstri hátíðarinnar. Alls sóttu 18 manns um starfið og voru nokkrir af þeim boðaðir í viðtöl í gær og fyrradag. Anna Hildur vill ekki upplýsa hverjir sóttu um starfið, né heldur hversu margir voru boðaðir í viðtal.

„Ástæðan fyrir því að Grímur er ráðinn er sú að hann hefur mikla reynslu af tónleikahaldi, hann hefur séð um tónleikahátíðir og hefur líka reynslu af rekstri og starfsmannahaldi," segir Anna Hildur.

Grímur Atlason hættir sem sveitarstjóri í Dalabyggð eftir kosningar í vor og var á fundi í sveitinni þegar Fréttablaðið náði í hann. „Það er búið að byggja upp alveg feikilega öfluga hátíð sem allir þekkja," segir Grímur. „Ég er með ákveðnar áherslur í tónleikahaldi sem þeir sem mig þekkja vita hvernig eru. Mér finnst tækifærin vannýtt."

Grímur hefur sótt tónleikahátíðir stíft síðustu ár og segir að ýmislegt megi læra af þeim. Samstarf milli hátíða sé til dæmis mikilvægt til að koma hljómsveitum á framfæri og hann segist vilja auka möguleika íslensku hljómsveitanna á því að vera bókaðar erlendis í kjölfar hátíðarinnar. „Senan á Íslandi er svo lífleg og öflug," segir Grímur. „Þess vegna er Airwaves og það er það sem ég vil halda áfram að byggja og styrkja." - hdm, afb




Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.