Lífið

Steini fjall selur gosmyndir um allan heim

Sigursteinn Baldursson ljósmyndari hyggst vakta Kötlu og ná þannig myndum af Kötlugosi verði það að veruleika.
Sigursteinn Baldursson ljósmyndari hyggst vakta Kötlu og ná þannig myndum af Kötlugosi verði það að veruleika.

Myndir ljósmyndarans Sigursteins Baldurs­sonar, eða Steina fjalls eins og hann kallar sig, af eldstöðvunum við Fimmvörðuháls hafa birst í heimsfjölmiðlum á borð við CNN og The Guardian auk fjölda dagblaða í Kína, Indlandi og víðar.

Sigursteinn hefur unnið að uppsetningu ferðavefsins Planeticeland undanfarin ár en þar geta áhugasamir ferðast um landið með því að skoða myndir sem teknar eru á fimmtán kílómetra fresti og sýna landslag og staði í 360 gráða vinkli.

„Þetta er einn stærsti sýndarveruleiki í heimi og þarna getur fólk upplifað það að ferðast um landið á Netinu. Við neyðumst þó til að hætta með vefinn innan skamms því hvergi er fjármagn að finna. Í staðinn mun ég leggja aukna áherslu á landslagsmyndir auk þess sem ég er farinn að leggja drög að verkefni sem ég nefni Waiting For Katla," útskýrir Sigursteinn sem hyggst koma um tuttugu myndavélum fyrir á ýmsum stöðum í kringum Kötlu. Vélarnar munu taka myndir á tuttugu mínútna fresti og því ætti að nást mynd af gosinu ef af því verður.

„Mig langar að mynda Suðurlandið og svæðið í kringum jökulinn því gera má ráð fyrir því að þetta landsvæði verði fyrir miklum breytingum á næstunni. Mig langar með þessum hætti að búa til minnismerki um þá atburði sem hafa átt sér stað."

Áhugasömum er bent á aðdáendasíðu Steina Fjalls á Facebook. - sm








Fleiri fréttir

Sjá meira


×