Lífið

Tóku upp sumarslagara um eldgos, gellur og snakk

Rokkararnir í Reykjavík! og Mugison taka upp sumarslagarann sem er með angurværum stuðundirtóni.
Rokkararnir í Reykjavík! og Mugison taka upp sumarslagarann sem er með angurværum stuðundirtóni. MYND/Paul Sullivan
Mugison og rokkararnir í Reykjavík! hafa tekið upp nýtt lag saman. Það kemur út á sjálfum þjóðhátíðardegi Íslendinga, 17. júní. Mugison og Reykjavík! drifu sig í Tankinn í Önundarfirði síðastliðinn miðvikudag og hljóðrituðu lagið á einni kvöldstund. Kemur það út á sumarsafnplötu Kimi Records sem er væntanleg 17. júní.

„Við erum allir að vestan nema söngvarinn [Bóas Hallgrímsson] og förum alltaf vestur á páskum," segir Haukur S. Magnússon úr Reykjavík!. „Við vorum ekki bókaðir á Aldrei fór ég suður í ár. Ákváðum að taka okkur pásu og leyfa öðrum að komast að. En við ákváðum að rífa Bóas með vestur engu að síður og kýla á að taka upp lag," segir Haukur og er sannfærður um að þetta verði sumarsmellurinn í ár. „Ég held að menn hafi ákveðið að selja almennilega út. Textinn er á íslensku um eldgos og gellur og snakk og við stefnum að því að komast á spilunarlista á Bylgjunni og Flass FM. Síðan er spurning hvort það hentar þeirra „formati"."

Hann lýsir laginu sem popp-rokk­lagi með angurværum stuðundirtóni. „Það sver sig í ætt bæði við Veðurguðina og Diktu og kannski Dr. Spock. Þetta er bræðingur af því."

Örlögin höguðu því reyndar þannig að Reykjavík! spilaði á Aldrei fór ég suður á föstudagskvöldinu. Hljómsveitin var stödd fyrir vestan á sama tíma og þær sveitir sem voru bókaðar komust ekki vegna veðurs. Spilaði hún á eftir Ingó og Veðurguðunum við góðar undirtektir.

Þrátt fyrir að Mugison og strákarnir í Reykjavík! séu allir að vestan er nýja lagið það fyrsta sem þeir taka upp saman. Samstarfið gekk það vel að Mugison mun annast upptökustjórn á nokkrum lögum Reykjavík! fyrir komandi verkefni hljómsveitarinnar.

freyr@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.